Viðskipti erlent

Sölunni lokið á AAT

Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður Avion Aircraft Trading segir hafa verið tímabært að ljúka við að kaupa félagið af Eimskipi.
Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður Avion Aircraft Trading segir hafa verið tímabært að ljúka við að kaupa félagið af Eimskipi. GVA

Hf. Eimskipafélag Íslands hefur selt 49 prósenta hlut félagsins í Avion Aircraft Trading (AAT) á 28 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 1,8 milljörðum króna.

Kaupandi er Arctic Partners ehf. sem er í eigu Hafþórs Hafsteinssonar, stjórnarformanns AAT, Arngríms Jóhannssonar, stjórnarmanns og annarra stjórnenda. Arctic Partners keypti 51 prósents hlut í AAT af Eimskipi í október í fyrra. Fram að þeim tíma var félagið að fullu í eigu Eimskips.

Hafþór Hafsteinsson, starfandi stjórnarformaður Avion Aircraft Trading, segir samstarfið við Eimskip síðustu misseri hafa verið mjög ánægjulegt en nú hafi verið rétti tímapunkturinn til að kaupa félagið í heild. „Við erum að vinna í spennandi verkefnum og horfum fram á góð tækifæri sem styðja við kaupin.“

Í tilkynningu Eimskips kemur fram að söluhagnaður félagsins af 49 prósenta hlutnum nemi um 24 milljónum Bandaríkjadala, en það eru rúmlega 1,5 milljarðar króna. Salan verður færð á þriðja ársfjórðung og andvirðið notað til að greiða niður skuldir Eimskips sem til eru komnar vegna mikilla fjárfestinga í fyrirtækjum á sviði kæli- og frystigeymsla.

Salan á AAT er í samræmi við stefnu Eimskips um að selja frá félaginu flugrekstrartengdar eignir. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, segir mikilvægt fyrir félagið að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni sem sé í flutningum og geymslu á kæli- og frystivörum. „Við erum að byggja hana upp og höfum nú þegar leiðandi stöðu á því sviði á heimsvísu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×