Viðskipti innlent

Átta prósenta hækkun á fjórum dögum

 Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 8,2 prósent síðustu fjóra markaðsdaga. Sérfræðingur Landsbankans býst við áframhaldandi flökti á mörkuðum, en segir ástandið gott til lengri tíma litið.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 8,2 prósent síðustu fjóra markaðsdaga. Sérfræðingur Landsbankans býst við áframhaldandi flökti á mörkuðum, en segir ástandið gott til lengri tíma litið. MYND/Valli

Hlutabréf héldu áfram að hækka í Kauphöll Íslands í gær, fjórða daginn í röð. Úrvalsvísitalan hefur nú hækkað um 8,2 prósent frá því að morgni föstudags í síðustu viku. Exista hefur hækkað um sextán prósent á fjórum dögum. Sérfræðingur segir ástandið til langs tíma gott, þótt áfram megi búast við nokkru flökti.

Mestar hækkanir urðu á bréfum í Existu í gær; 4,46 prósent. Hlutabréf í FL Group hækkuðu um tæp þrjú prósent, Straumur um 2,72 prósent og Atlantic Petroleum um 2,17 prósent. Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,17 prósent. Þá styrktist krónan um 1,74 prósent og stendur gengisvísitalan í rétt rúmum 120 stigum. Gengi krónunnar og hlutabréfa hafa farið hönd í hönd undanfarna daga; þegar krónan hefur styrkst, hafa hlutabréf í kauphöll Íslands hækkað.

„Við bentum á í síðustu viku að kauptækifæri væru farin að myndast á markaðnum. Þær lækkanir sem urðu um daginn voru ef til vill full snarpar. Við teljum að nú sé úrvalsvísitalan á réttu róli“, segir Katrín Friðriksdóttir, sérfræðingur greiningardeildar Landsbankans.

Exista hefur hækkað mest allra félaga undanfarna daga. Bréf í félaginu hafa hækkað um sextán prósent síðan á föstudaginn. Kaupþing hefur hækkað um ellefu prósent á sama tímabili og bréf í Landsbankanum um rétt tæp níu prósent. Þessar miklu hækkanir koma í kjölfar þriggja vikna lækkunarhrinu sem endaði þann 16. ágúst síðastlðin. Hafði úrvalsvísitalan þá lækkað um tæp sextán prósent frá því 23. júlí, þegar hún stóð í 9.006 stigum.

Af samtölum við verðbréfamiðlara má greina hversu mikið spágildi þeir telja þróun á erlendum hlutabréfamörkuðum hafa fyrir hérlend bréf. Nánast sé hægt að athuga hvernig asíski markaðurinn hafi lokað, og hvernig þeir evrópsku hafi opnað, og spá síðan fyrir um gengi bréf í Kauphöll Íslands þann daginn „Fylgnin við erlenda markaði er orðinn svo miklu meiri en áður“, segir Katrín.

Hún telur að áfram verði nokkrar sveiflur á hlutabréfamörkuðum, enda ekki enn komið í ljós hver endanleg áhrif ástandsins á bandaríska fasteignalánamarkaðnum verða „Við sáum áhrifin af þeirri ákvörðun Bandaríska seðlabankans að lækka skammmtímavexti, þá fylgdu miklar hækkanir í kjölfarið. Við vitum aldrei hverju verður kastað inn á markaðinn og því er svolítið erfitt að spá. Það eru tækifæri á innlenda markaðnum, en líka talsverð áhætta. Til langs tíma litið er hins vegar hægt að segja ástandið gott.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×