Viðskipti erlent

Þreföldun á pari við væntingar

Stephen Schwarzman, forstjóri Blackstone Group, eins stærsta fjárfestingafélags í heimi, ætlar að halda áfram að skila góðri afkomu þrátt fyrir hræringar á fjármálamarkaði.
Stephen Schwarzman, forstjóri Blackstone Group, eins stærsta fjárfestingafélags í heimi, ætlar að halda áfram að skila góðri afkomu þrátt fyrir hræringar á fjármálamarkaði. MYND/AFP

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Blackstone Group skilaði 774 milljóna Bandaríkjadala hagnaði á öðrum fjórðungi ársins. Þetta jafngildir tæplega 51 milljarði íslenskra króna, sem er þreföldun frá sama tíma fyrir ári. Þetta er í takt við væntingar greinenda.

Stephen Schwarzman, forstjóri Blackstone Group, er að vonum hæstánægður með árangurinn. Fyrirtækið ætli hins vegar ekki að draga lappirnar heldur ætli það að halda áfram á sömu braut þrátt fyrir hræringar á fjármálamarkaði.

Blackstone var skráð á hlutabréfamarkað í júní. Gengið hefur dalað talsvert eftir skráningu og stendur nú undir útboðsgengi.

Fyrirtækið ætti að vera vel reiðubúið fyrir næstu skref því stutt er síðan það lauk við að safna 21,7 milljörðum dala, jafnvirði 1.376 milljörðum íslenskra króna, í nýjan sjóð frá fjárfestum. Þetta er stærsti sjóður sinnar tegundar í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×