Lífið

Gunnar hættir hjá V-dagssamtökunum

Gunnar er hættur sem framkvæmdastjóri V-dagssamtakanna en er með mörg járn í eldinum.
Gunnar er hættur sem framkvæmdastjóri V-dagssamtakanna en er með mörg járn í eldinum. MYND/Anton Brink

„Þetta er ekki alveg gengið í gegn en við ættum að vera búin að ganga frá þessu á allra næstu dögum," segir Gunnar Sigurðsson en hann mun hætta sem framkvæmdastjóri V-dagsins. „Það hefur verið brjálað að gera hjá V-deginum, og mér finnst eins og ég hafi ekki getað tekið þetta með þeim krafti sem ég hefði viljað gera. Tvö stærstu verkefnin, Píkusögur og verslunarmannahelgarátakið, eru nú að baki og það er dágóður tími þangað til næsta verkefni lítur dagsins ljós," segir Gunnar og telur því að nú sé rétti tíminn til að snúa sér að einhverju öðru. „Þetta eru hagsmunasamtök og einhvern veginn verður maður líka að hafa í sig og á. Og það var því ákveðið með faðmlagi að segja þetta gott í bili," bætir Gunnar við en áréttar þó að hann muni taka virkan þátt í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum. Gunnar segist vera með mörg járn í eldinum, eiginlega of mörg, en vildi ekki gefa upp hvað tæki við hjá honum næst. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum.

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá Gunnari því áður en hann fór að sinna verkefnum fyrir V-daginn hafði hann verið Guðmundi Steingrímssyni innan handa í Kvöldþættinum sáluga en flutti sig síðar um set og var í gestahlutverki hjá Strákunum á Stöð 2. Gunnar var síðan kosningastjóri hjá Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í fyrra en hefur síðan að þeim lauk verið framkvæmdastjóri V-dagssamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.