Viðskipti innlent

Vísindasafn verður opnað

Náttúrufræðistofnun Íslands Verður flutt frá Hlemmi í stærra húsnæði sem fullnægir kröfum sem gerðar eru til nútímalegra stofnana og safna.
Náttúrufræðistofnun Íslands Verður flutt frá Hlemmi í stærra húsnæði sem fullnægir kröfum sem gerðar eru til nútímalegra stofnana og safna.

Náttúrufræðistofnun Íslands er á leið í nýtt húsnæði. Útboð hefur verið auglýst en undirbúningur hefur staðið síðan umhverfisráðuneytið samþykkti í vor að stofnunin fengi nýtt húsnæði. Gerð er krafa um að Náttúrufræðistofnun verði á höfuðborgarsvæðinu.

„Þar skiptir máli að nálægð verði við aðrar rannsóknarstofnanir og háskóla svo að vísindamenn hafi betri aðgang að stofnuninni,“ sagði Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunarinnar.

Húsnæðið á að vera 3.500-4.000 fermetrar og fullnægja öllum kröfum sem gerðar eru til stofnana og safna. Í húsinu verður sérstakt vísindasafn sem yrði opið vísindamönnum til rannsókna. Vísindasafnið hefur ekki verið opið.

„Aðbúnaður þessa vísindasafns hefur verið algerlega ófullnægjandi,“ sagði Jón Gunnar. Skemmst er að minnast þess þegar fjölmargir gripir eyðilögðust í geymslu í haust þegar rafmagn fór af frystiklefa. „Við kærðum málið en enn hefur enginn botn fengist í það.“

Sýningarsalurinn hefur verið aðskilinn Náttúrufræðistofnun. Stofnað hefur verið í staðinn Náttúruminjasafn Íslands sem sér um safnið og heyrir það undir menntamálaráðuneytið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×