Viðskipti innlent

Sjö laxar á sama spún

Ég er meiri aflamaður í eðli mínu en sportari. Ef ekki væri fyrir viðskiptasamböndin, þá myndi ég nú varla sveifla flugustöng heilu dagana heltimbraður og bitinn af mývargi.



Máltíðirnar á kvöldin eru hins vegar fínar og koníakið og vindlarnir eru konunglegir og reykingabann á skemmtistöðum hefur gert slíkar syndir í sveitasælunni enn stórkostlegri.



Svo sitjum við strákarnir og rekjum afrekin hver fyrir öðrum, bæði í veiði og á markaði. Þar er hvorki af sér dregið, né úr nokkru dregið eins og vera ber. Þessar sagnastundir vilja nú stundum dragast fram á nóttina og því lágt á manni risið þegar skriðið er út til veiða að morgni. Adrenalínið sem fylgir því að bitið sé á hjá manni er besta meðalið við drunga hamrandi timburmanna, en því hefur lítið verið að heilsa að undanförnu í vatnslitlum ám sem lítið sem ekkert gefa þrátt fyrir himinhá veiðileyfin.

Maður getur ekki bara hugsað um að skemmta sér í lífinu og eitt af hlutverkum manns í tilverunni er að ala börnin upp til að kunna það sem til þarf svo árangur náist í lífinu, svo sem golf og laxveiði.



Ég ók því sem leið lá austur í Ölfusá og keypti veiðileyfi fyrir kúk og kanil og svo settumst við undir vegginn á sláturhúsinu með spún og köstuðum í blíðunni. Það var ekki liðinn langur tími þegar sá fyrsti beit á. Þar var kominn feitur sjóbirtingur. Næsti olli ekki minni gleði, en þar reið undirritaður á vaðið og landaði þessum líka feita og fína laxi eftir nokkur átök.



Áður en yfir lauk vorum við búin að landa sjö löxum og tveimur urriðum. Þegar við héldum heim með aflann, þá hugsaði ég með mér að sennilega væri ég á einhvern hátt útvalinn af almættinu til að afla vel hvernig sem allt veltist. Alla vega höfðu bréfin mín hækkað hressilega á meðan ég dró hvern laxinn á fætur öðrum á land við sláturhússvegginn á Selfossi. Sumir eru bara fæddir til að sigra.



Spákaupmaðurinn á horninu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×