Viðskipti innlent

Er viðskiptahallinn að grafa undan krónunni?

Gríðarlegur halli hefur verið á viðskiptum við útlönd undanfarin ár. Fyrst og fremst vegna innflutnings á fjárfestingarvörum og neysluvörum en einnig vegna halla á þáttatekjum, þ.e. launum, vaxtagreiðslum og eignatekjum á milli landa.

Hallinn mældist 34 prósent af landsframleiðslu á lokafjórðungi síðasta árs og hefur valdið alþjóðastofnunum miklum áhyggjum. Lánshæfisfyrirtæki horfa líka til viðskiptahallans en hann ber vitni um ytra ójafnvægi í hagkerfinu og hættu á snarpri gengislækkun. Seðlabankinn hefur ítrekað í yfirlýsingum að viðskiptahallinn geti leitt til snöggrar gengislækkunar og þar með verðbólgu.

Halli á þáttatekjum vegur sífellt þyngra. Á síðasta fjórðungi ársins 2006 nam halli á viðskiptum með vörur og þjónustu 20 prósentum af landsframleiðslu og halli á þáttatekjum mældist 14 prósent.

Hvað er sjálfbær viðskiptahalli?

Það er ekki markmið í sjálfu sér að skila afgangi af viðskiptum við önnur lönd. Ekki er óeðlilegt að sumar þjóðir flytji inn meira en þær flytja út. Vangaveltur um það hvort viðskiptahalli sé of mikill beinast fljótt að spurningunni um hvort hann sé sjálfbær. Ýmsar skilgreiningar eru til á því hvað telst sjálfbær halli.

Ef tekjur frá útlöndum duga ekki til að greiða fyrir innflutning þá þarf að taka erlent lán til að greiða muninn. Þá aukast erlendar skuldir, þar með vaxtagreiðslur til útlanda og viðskiptahallinn. Sjálfbær halli er stundum skilgreindur þannig að hann leiði ekki til aukningar á erlendum skuldum þjóðarinnar eða að skuldir fari ekki yfir ákveðið hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er nokkuð þröng skilgreining þar sem hún leyfir ekki miklar erlendar fjárfestingar í framleiðslugetu þrátt fyrir að þær geti verið arðsamar.

Erlendur samanburður

Viðskiptahalli getur mælst mikill á meðan erlendar fjárfestingar sem auka við framleiðslugetu landsins og bæta varanlega við útflutningstekjur eiga sér stað. Sambærileg áhrif hafa komið fram þegar gjaldeyrisskömmtun er aflétt og fjármagnsflutningar milli landa eru gefnir frjálsir.

Ýmis þekkt dæmi eru um að áhyggjur af verulegum og viðvarandi viðskiptahalla hafi dvínað vegna þeirrar skoðunar að mikill halli sé ekki áhyggjuefni ef hann er fjármagnaður á frjálsum markaði. Í því felist frekar traustsyfirlýsing á stöðu hagkerfisins. Þessi dæmi hafa mörg hver endað með ósköpum og nægir að nefna Asíukreppuna og pesóakreppuna í Mexíkó. Þau dæmi eiga það reyndar sammerkt að verulega skorti á eftirlit með fjármálastofnunum og ábyrga hagstjórn. Þau einkenni misvægis sem gætti í aðdraganda kreppanna voru halli á ríkisfjármálum og óvarin gjaldeyrisstaða almennings ekki síður en mikill viðskiptahalli.

Því hefur verið haldið fram víðar, t.d. í Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, að viðvarandi viðskiptahalli beri vitni um traust á efnahagslífið, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir alþjóðastofnana. Engu að síður hefur t.d. Ástralíudalurinn staðið af sér ýmis áföll á þeim tíma, svo sem hrun í útflutningi í kjölfar Asíukreppunnar. Í nýlegri skýrslu frá ástralaska seðlabankanum er það þakkað upplýstri hagstjórn, öflugu fjármálaeftirliti og útbreiddum vörnum við gjaldeyrisáhættu að landið hefur búið við langvinnan viðskiptahalla án þess að gjaldmiðill þess hafi látið undan.

Halli á viðskitpum með vörur og þjónustu minnkar hrattVerulega dregur úr innflutningi í ár. Mikill samdráttur mældist á fyrsta ársfjórðungi vegna minnkandi stóriðjufjárfestingar en einnig dró úr innflutningi neysluvara, einkum bíla. Vísbendingar frá öðrum ársfjórðungi gefa til kynna að vöxtur hafi færst í einkaneysluna á ný og má tengja það við sterkt gengi krónunnar og fasteignamarkað sem virðist hafa tekið við sér, en hann hafði kólnað nokkuð í vetur. Þessi kippur sem virðist hafa komið í þensluna er þó líklegast aðeins tímabundinn. Vaxandi útflutningur á seinni hluta ársins, vegna aukinnar álframleiðslu, hjálpar einnig til við að draga úr viðskiptahallanum. Óvissa um þáttatekjur

Síðastliðin fjögur ár hafa vaxtagjöld vaxið hratt samfara aukningu í erlendum skuldum þjóðarbúsins. Það eru fyrst og fremst erlendar skuldir bankakerfisins sem vaxa. Það stafar af vexti fjármálakerfisins utan landsteinanna og stuðningi þess við íslensk fyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl í rekstri erlendis. Fjármögnun erlendrar starfsemi bankanna telst til erlendra skulda þjóðarbúsins. Þar sem verið er að fjármagna uppbyggingu á starfsemi erlendis getur verið bið á því að tekjurnar skili sér að fullu. Vaxtatekjur hafa fimmfaldast á síðust tveimur árum á meðan vaxtagjöldin hafa þrefaldast, en gjöldin eru þó enn hærri en tekjurnar.

Í þjóðhagsreikningum er gengishagnaður vegna verðbréfaeignar ekki færður til tekna fyrr en við innlausn. Þetta getur valdið verulegri skekkju eins og kaup lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfasjóðum draga fram.

Sá hluti hagnaðar íslenskra fyrirtækja sem er í erlendri eigu mælist sem útflæði í þáttatekjum. Þannig myndast neikvæð færsla, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða eign Íslendings sem skráð er í gegnum erlent eignarhaldsfélag. Þetta leiddi til ofmats á viðskiptahallanum í fyrra.

Er viðskiptahallinn sjálfbær?

Draga mun úr innflutningi á næstunni og útflutningur eykst þegar fjárfesting síðustu ára skilar sér í aukinni framleiðslu. Einnig dregur úr innflutningi vegna samdráttar einkaneyslu. Viðskiptahalli síðasta árs mældist mikill vegna þess að stórir og að nokkru leyti handahófskenndir liðir féllu þeim megin í greiðslujafnaðartölum. Það er ekki æskilegt að draga úr hagnaði íslenskra fyrirtækja þótt það sé nokkuð örugg leið til að draga úr viðskiptahalla eins og hann er mældur.

Reynsla frá öðrum þjóðum sýnir að það er ekki gæfulegt að miða hagstjórn að því að ná fram markmiðum um ákveðnar hagstærðir eins og viðskiptahalla. Það er mun farsælla að huga að innviðum kerfisins, þ.e. að stuðla að markaðsfrelsi þar sem því verður við komið, skilvirku fjármálaeftirliti og upplýstri hagstjórn. Við slíkar aðstæður getur ójafnvægi á viðskiptum við önnur lönd verið mikið um nokkuð langt skeið án þess að það leiði til lækkunar gengisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×