Skoðun

Stórskipahöfn á Kársnesi

Íbúar í vesturbæ Kópavogs hafa á undanförnum mánuðum mótmælt væntanlegum skipulagsbreytingum á Kársnesi. Þar er gert ráð fyrir talsverðri þéttingu byggðar ásamt stórskipahöfn með tilheyrandi þungaflutningum.

Í fréttum ríkissjónvarpsins þann 1. júlí var viðtal við íbúa í vesturbæ Kópavogs sem kvaðst þreyttur á að minnihlutinn í bæjarstjórn Kópavogs hefði meiri áhuga á ferðum bæjarstjórans í Kópavogi á súlustaði en væntanlegri stórskipahöfn á Kársnesi. Þessi ummæli þykir mér ástæða til að leiðrétta enda um rakin misskilning að ræða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi hafa aldrei tjáð sig um meint tengsl bæjarstjórans við súlustaði bæjarins, hvorki á bæjarstjórnarfundum eða í fjölmiðlum. Undirrituð hefur hins vegar fjallað um meint lögbrot á næturklúbbnum Goldfinger í Kópavogi þegar málefnið var til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hins vegar hafa allir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar ásamt fulltrúum í skipulagsnefnd ítrekað lýst sig andvíga stórskipahöfn í Kópavogi bæði í fjölmiðlum og í umræðu í bæjarstjórn Kópavogs. Í fundargerðum sem eru aðgengilegar á netinu má sjá fjölmargar bókanir þar að lútandi.

Samfylkingin í Kópavogi lýsti því yfir fyrir síðustu kosningar að við myndum leggjast alfarið gegn frekari uppbyggingu hafnar á Kársnesi og því höfum við fylgt staðfastlega eftir allt síðasta ár. Enn fremur höfum við lýst yfir miklum áhyggjum af þeirri miklu uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Kársnesinu með tilheyrandi umferðarþunga og höfum beitt okkur gegn svo þéttu skipulagi sem fyrstu tillögur gerðu ráð fyrir.

Hvað fjölmiðlar telja svo fréttamat, er þeirra að ákveða, en þótt einstaka mál sem eru til umfjöllunar í bæjarstjórn Kópavogs rati ekki í fjölmiðla þýðir það ekki að við vinnum ekki af fullum krafti að þeim málum, bæði stórum og smáum.

Væntanlegar skipulagsbreytingar í vesturbæ Kópavogs ásamt stórskipahöfn er alfarið á ábyrgð sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Kópavogi. Það eru þeir tveir flokkar sem mynda meirihluta í bæjarstjórn og því er ákvörðunarvaldið þeirra. Samfylkingin mun nú sem fyrr veita þeim kröftugt aðhald í öllum málum, hvort sem sá málflutningur okkar ratar í fjölmiðla eða ekki.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.