Viðskipti innlent

Straumur til austurs

Jan Sýkora, forstjóri og stjórnarformaður Wood & Company, og William Fall, forstjóri Straums-Burðaráss.
Jan Sýkora, forstjóri og stjórnarformaður Wood & Company, og William Fall, forstjóri Straums-Burðaráss. Fréttablaðið / GVA

Straumur-Burðarás tilkynnti í gær um kaup á fimmtíu prósenta hlut í tékkneska fjárfestingarbankanum Wood & Company. Höfuðstöðvar bankans eru í Prag en hann hefur einnig starfsemi í Slóvakíu og Póllandi.

Þau skilyrði fylgja kaupunum að Straumur hafi kauprétt að eftirstandandi hlutum. Þau kaup munu fara fram í síðasta lagi á fyrri hluta ársins 2011.

Kaupverð var ekki gefið upp. Greiðsla mun fara fram með reiðufé og hlutabréfum í Straumi. Á kynningarfundi vegna kaupanna í gær sagði William Fall, forstjóri Straums-Burðaráss, þau hafa ótvíræða kosti. Mikið virði sé fólgið í kaupunum fyrir hluthafa félagsins, þótt þau muni hafa óteljandi fjárhagsleg áhrif á bankann.



William sagði mikla vaxtarmöguleika felast í að sameina kosti bankanna tveggja. Straumur fái aðgang að ört stækkandi mörkuðum og auki hlutfalla vaxta- og þóknunartekna af heildartekjum. Wood & Company muni njóta góðs af sterkum efnahagsreikningi Straums sem muni styðja við öran vöxt félagsins. Þá geti báðir bankar aukið verulega við vöruframboð sitt.



Meðal viðskiptavina Wood & Company eru fjárfestar og fyrirtæki í Mið- og Austur-Evrópu. Þá hafa jafnframt alþjóðlegir stofnanafjárfestar og fjárfestingarbankar leitað til bankans til að öðlast aðgang að mörkuðum í Austur- og Mið-Evrópu. Bankinn hefur um þrjátíu prósenta markaðshlutdeild í kauphöllinni í Prag. Þá hefur það einnig aðild að kauphöllunum í Búdapest, Varsjá, Búkarest og Ljúblíana, sem og kauphöllum Austurríkis og Þýskalands.



Straumur-Burðarás stefnir að því að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki. William sagði kaupin á Wood & Company vel samræmast þeirri stefnu. „Til að ná forystu á norrænum markaði er okkur nauðsynlegt að vera virk á mörkuðum sem hafa áhrif á Norðurlöndin."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×