Viðskipti innlent

Hluthafar Giftar verða fleiri en eigendur bankanna

Benedikt Sigurðsson Ehf. Samvinnutryggingar skilaði 13,8 milljarða hagnaði í fyrra. Stærsti eignarhlutur félagsins liggur í bréfum í Existu, að verðmæti 20,7 milljarðar.
Benedikt Sigurðsson Ehf. Samvinnutryggingar skilaði 13,8 milljarða hagnaði í fyrra. Stærsti eignarhlutur félagsins liggur í bréfum í Existu, að verðmæti 20,7 milljarðar. MYND/Valli

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Samvinnusjóðurinn verður stærsti hluthafinn í fjárfestingafélagi Gift, sem mun taka við eignum og skuldum við slit Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga. Ætla má að hlutur félagsins gæti numið þrjátíu prósentum í hinu nýja félagi sem jafngildir tíu milljörðum króna ef horft er til eigin fjár Giftar. Aðrir hluthafar Giftar verða aðrir rétthafar í Ehf. Samvinnutryggingum, alls fjörutíu þúsund einstaklingar og lögaðilar, sem gerir félagið að langfjölmennasta almenningshlutafélagi landsins en til samanburðar voru hluthafar í Kaupþingi og Existu, sem höfðu flesta hluthafa innan sinna vébanda um áramótin, ríflega 31 þúsund talsins. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um skráningu félagsins í Kauphöll Íslands.

Reikningar Ehf. Samvinnutrygginga fyrir síðasta ár endurspegla þá miklu verðmætaaukningu sem varð þegar félagið skipti á hlutabréfum sínum í VÍS fyrir bréf í Existu sem fór á markað síðar sama ár.

„Efnahagsreikningurinn tók stórt stökk bæði vegna þessa og eins vegna fjárfestinga sem við fórum í fyrra með lántökum,“ segir Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri félagsins. Hagnaður nam 13,8 milljörðum króna og jókst um 386 prósent á milli ára. Eignir samstæðunnar námu fimmtíu milljörðum í árslok og eigið fé 21 milljarði króna.

Benedikt telur að fjóra mánuði taki að lágmarki að færa hluthöfum hlutaféð. Meðal annars þarf að birta innköllun til kröfuhafa þannig að þeir hafi ráð til þess að lýsa kröfum sínum á félagið sem tekur tvo mánuði. Eitt af verkefnum þriggja manna skilanefndar er að leiðrétta skrá yfir þá sem voru tryggingatakar í árslok 1988 og 1993 miðað við þær breytingar sem hafa orðið á högum þeirra síðan. Samvinnutryggingasjóðurinn hefur tekið til sín þau réttindi sem tryggingatakar hafa glatað, ýmist við andlát eða þegar félög hafa misst réttindi sín. „Nú er gerð miklu sterkari og skýrari umgjörð um þann sjóð. Hann er gerður að sjálfseignarstofnun. Um hann gildir skipulagsskrá sem verður vonandi staðfest af dómsmálaráðuneyti.“

Ehf. Samvinnutryggingar eiga helmingshlut í Eignarhaldsfélaginu Andvöku g.f. Félagið, sem varð til þegar líftryggingafélagið Andvaka og líftryggingar Brunabótafélagsins sameinuðust undir merkjum Lífís árið 1990, er töluvert minna í sniðum en Ehf. Samvinnutryggingar. Það hefur þó vaxið ágætlega á síðustu árum og skilaði 2,6 milljarða króna hagnaði í fyrra sem var nærri tífalt meiri hagnaður en árið þar á undan. Eigið fé var tæpir fjórir milljarðar. Beinni eignaraðild Andvöku í tryggingarekstri er lokið og á félagið fyrst og fremst hlutabréf í Existu. „Það liggur ekkert fyrir hvað þeir vilja sem ráða því sem er fulltrúaráð Andvöku. Þau orð hafa verið látin falla að það væri eðilegt að það sama væri gert við Andvöku.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×