Viðskipti innlent

FL Group tapaði 100 milljónum á Bang & Olufsen

MYND/Heiða
MYND/Heiða

FL Group hefur selt alla hluti sína, 10,76 prósent, í danska raftækjaframleiðandanum Bang & Olufsen fyrir 10,2 milljarða króna. Tap FL Group á fjárfestingunni nemur um 100 milljónum króna.

FL Group kom inn í hlutahafahóp Bang & Olufsen í febrúar í fyrra með kaupum á 8,2 prósenta hlut fyrir 7,5 milljarða króna. Það bætti fljótlega við sig og jók hann smám saman í 10,76 prósent.

Afkoma Bang og Olufsen hefur verið undir væntingum og hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um sjö prósent frá því FL Group kom inn í hluthafahópinn í fyrra.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi FL Group, segir ljóst að félagið hafi ekki hagnast á kaupunum. Megi vænta betri ávöxtunar á öðrum vettvangi og hafi því verið ákveðið að selja bréfin til hóps danskra og alþjóðlegra stofnanafjárfesta.

Að sögn Kristjáns er ætlunin að setja söluandvirði bréfanna í verkefni þar sem peningarnir vinni betur fyrir sér en hjá Bang & Olufsen „Svo þurfum við alltaf á því að halda að geta fært pening úr einu verkefni í annað og leitum alltaf eftir eins góðri ávöxtun og við getum fengið,“ segir hann og bætir við að FL Group sé ætíð að skoða ný verkefni. Slíkt krefjist fjármagns.

Danska blaðið Börsen greindi frá því í gærmorgun að FL Group hefði tapað jafnvirði um 670 milljóna íslenskra króna á viðskiptunum. Kristján segir svo ekki vera. Hafi blaðið ekki tekið tillit til arðgreiðslna og mismunandi gengis á bréfum í Bang & Olufsen við kaup FL Group og hafi því verið farið fram á að Börsen leiðrétti skrif sín. Kristján sagði það engu að síður rétt að FL Group hefði tapað á fjárfestingunni. Fjárhæðin væri hins vegar mun lægri, um 100 milljóna íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×