Lífið

Þótti lík þessari Ragnhildi í Kastljósinu

Ragnhildur Steinunn Fólkið á Hrafnistu kenndi sjónvarpskonunni að tala gott og kjarnyrt mál.
Ragnhildur Steinunn Fólkið á Hrafnistu kenndi sjónvarpskonunni að tala gott og kjarnyrt mál.

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir hefur verið mikið fjarverandi frá skjánum undanfarna tvo mánuði og fyrir því er góð ástæða. „Ég hef verið í starfsnámi enda útskrifast ég úr sjúkraþjálfunarnáminu sextánda júní,“ sagði Ragnhildur þegar Fréttablaðið náði tali af henni. Sjónvarpskonan góðkunna segist verða ákaflega fegin þegar þessari törn lýkur.

Ragnhildur hóf starfsþjálfun sína á Landspítalanum en færði sig síðan yfir á Hrafnistu þar sem gamla fólkið tók vel á móti henni. „Þetta hefur verið heljarinnar lífsreynsla og það er alveg ótrúlegt hvað gamla fólkið getur gert,“ segir Ragnhildur og bætir því við að þarna hafi hún séð að eldri borgararnir sitja ekki bara með hendur í skauti heldur aðhafast ótrúlegustu hluti.

Ragnhildur er þekkt andlit enda verið á skjánum í þó nokkur ár. En á Hrafnistu segist hún hafa fengið ágætis „reality check“. „Þegar maður var kominn úr sjónvarpsfötunum og yfir í hvíta sloppinn var maður sjúkraþjálfari. Reyndar var fólkið á Hrafnistu alltaf að segja við mig hvað ég líktist þessari Ragnhildi í sjónvarpinu,“ segir hún og hlær.

Og sjónvarpskonan telur að allir sem eru í fjölmiðlum hefðu hreinlega gott af því að fara í stutta dvöl á Hrafnistu. „Þarna lærir maður að tala kjarnyrt og gott mál,“ segir Ragnhildur, reynslunni ríkari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.