Heilsa

Það er gaman að horfa til baka

helgi björns Töffari, framkvæmdamaður og brúnkökuaðdáandi: „Ég viðurkenni að það var mjög skemmtilegt að vera með sólgleraugun og vindinn í hárinu af því að maður var að sörfa á þakinu á rútunni.“ Fréttablaðið/Hörður
helgi björns Töffari, framkvæmdamaður og brúnkökuaðdáandi: „Ég viðurkenni að það var mjög skemmtilegt að vera með sólgleraugun og vindinn í hárinu af því að maður var að sörfa á þakinu á rútunni.“ Fréttablaðið/Hörður
Helga Björns langar í brúnköku þar sem við sitjum eins og fínir menn innan um Kjarvalana á Hótel Holti. Hann var hjá mömmu sinni á Ísafirði um páskana og fékk brúnköku. Segist alltaf komast í létta nostalgíu þegar hann fær brúnköku. „Brúnkökur og randalínur minna mann alltaf á gamla daga,“ segir hann. „Þú færð náttúrlega ekkert svoleiðis í Berlín,“ segi ég. „Nei, en ég fæ Berlínarbollur,“ segir Helgi. „Já auðvitað,“ segi ég, „eru þær betri en í Bernhöftsbakaríi?“ „Já og meira að segja betri en í Gamla bakaríinu á Ísafirði og þá er nú mikið sagt,“ segir Helgi Björns.Ævintýrin heillaBerlín segirðu, þú ert alltaf þar. Ertu fluttur? „Tja, hvað er að vera fluttur? Ég er þar með mína íbúð og mína vinnu. Mæti á skrifstofuna á hverjum morgni og svo framvegis. Ég hef verið þar fastur síðan um áramót, en fram að því var ég á flakkinu.“ Og þú ert að reka öll leikhúsin í Berlín eða hvað? „Nei, ekki öll! Ég rek nú bara eitt, Admirals palats, ásamt þýskum félaga mínum. En þetta er heilmikið komplex í 25 þúsund fermetra húsi. Fjórir salir, þar af einn 1.700 sæta; matsölustaður, klúbbur og lúxus baðhús. Svo eru þarna tvær skrifstofuhæðir og jassklúbbur verður opnaður bráðlega.“ Þetta er væntanlega sögufræg bygging? „Heldur betur! Það er rosalega mikil saga í þessu húsi. Upphaflega var þetta byggt sem skautasvell og böð fyrir aristókrata sem helgast af því að undir húsinu er ölkeldubrunnur. Á millistríðsárunum, þegar dekadensinn með öllum revíunum og söngleikjunum var allsráðandi í Berlín, var þetta aðalhúsið. Þegar nasistarnir komu gerðu þeir húsið að sínu og það var byggð stúka fyrir Foringjann. Eftir stríð var austur-þýski kommúnistaflokkurinn stofnaður þarna á sviðinu en svo smám saman sofnaði þessi menningarhöll og dó endanlega 1997. Það stóð til að rífa húsið og leikhópum og almenningi var hleypt á staðinn til að láta greipar sópa. Þegar við komum að húsinu árið 2003 var þetta tóm skel sem við þurftum að endurbyggja frá grunni. Það tók þrjú ár og við opnuðum í ágúst síðastliðnum.“ Hvað hafið þið svo verið að bjóða upp á þarna? „Við opnuðum með Túskildingsóperu Brechts í stóra salnum með Campino úr Die Toten Hosen í aðalhlutverki. Síðan höfum við fengið alls konar stöff þarna inn: Buena Vista Social Club, Óperudrauginn, Stomp og Grease og hvað eina. Við bæði leigjum út salina og setjum upp okkar eigin sýningar.“ Ertu að taka íslenskt stöff þarna inn? „Benni Hemm Hemm spilaði á opnuninni og við fáum kannski einhverjar íslenskar hljómsveitir inn í sumar. Svo erum við að spá í að fá Vesturport til að setja upp Hamskiptin hjá okkur næsta vor. Þetta verður allt að meika fjárhagslegan sens því við erum sjálfstæðir. Það er rosahörð samkeppni frá ríkisreknum leikhúsum, alveg eins og á Íslandi.“ Hvernig finnst þér svo að búa í Berlín? „Berlín er dásamleg borg með marga jákvæða punkta. Það er mikill vöxtur og uppbygging þarna og sköpunargleði. Mikið frumkvæði og rosamikill kúltúr. Það er líka minna stress þarna en í stórborgum yfirleitt og meira að segja miklu minna stress en hér. Það er ótrúlegt hvað er hægt að tjúna stressið upp í jafn lítilli borg og Reykjavík. Í Berlín finnurðu allt sem þig langar til að finna, músik, klúbba eða mat – það er allt þarna og meira að segja Knútur í dýragarðinum!“ Fannst þér kominn tími til að yfirgefa Ísland? „Ævintýrin heilla og það er aldeilis ævintýri að vera staddur í miðpunkti menningarlífs Evrópu. En ekki það að ég hafi ákveðið að tími væri kominn til að fara í burtu. Eitt leiddi bara af öðru eins og gengur.“Með vindinn í hárinuEn nú ertu hér og að fara að spila á tónleikum með … ja, er það Síðan skein sól eða SSSól? „Síðan skein sól höfum við notað til að minna á að við ætlum að rifja upp ferilinn á þessum tónleikum.“ Þið hafið aldrei hætt? „Nei nei, við höfum að lágmarki spilað eitt til tvö gigg á hverju ári þótt það hafi kannski ekki farið hátt.“ En þið hafið nú ekki gefið mikið út síðasta áratuginn eða svo? „Blóð var síðasta breiðskífan og hún kom 1994 og við höfum ekki gefið út nýtt lag síðan 2002. En þarna á milli – 1994 og 2002 – gáfum við út heil 18 safnplötulög sem er næstum því tvær breiðskífur. En samt, of lítið á of löngum tíma, finnst mér.“ Er þá ekki pælingin að gera nýja plötu? „Jú, það er búið að standa til í sex ár. Við erum búnir að taka upp demó og það er til hellingur af lögum, en það er bara aldrei tími til að hrinda þessu í framkvæmd.“ Er langt síðan bandið var fúll tæm djobb? „Það hefur ekki verið það síðan 1996. Þá fóru menn að leita sér að salti í grautinn annars staðar. Við vorum búnir að keyra svakalega stíft í heil sjö ár, spila allan ársins hring oft í viku og aldrei frí nema þrjár vikur eftir áramót og tvær eftir verslunarmannahelgi. Þarna um áramótin 95/96 var ég orðinn útkeyrður á þessu og vildi fara að gera eitthvað annað. Þá opnaði ég og fór að reka Astro og bandið fór að spila færri en stærri gigg.“ Er ekki söknuður af rokkkeyrslunni? „Það er gaman að horfa til baka. Ég viðurkenni að það var mjög skemmtilegt að vera með sólgleraugun og vindinn í hárinu af því að maður var að sörfa á þakinu á rútunni. Það var smá útlagafílingur í þessu. En hvort maður sé að sækjast eftir þessu í dag … ég veit það nú ekki.“ Það er enginn Keith Richards í þér? „Nei, ég held ekki. Maður þroskast upp úr töffaraskapnum, þótt maður vilji nú alltaf líta á sig sem töffara. Hvað svo sem það annars þýðir.“ Er þetta fyrirsögnin á viðtalinu: „Hef þroskast upp úr töffaraskapnum“? „Neeeiiii! Það er svo leim!“Gott að vera með ö-iEn nú ætlið þið að spila í Borgarleikhúsinu á miðvikudaginn, síðasta vetrardag. Tvennir tónleikar sama kvöldið og þegar orðið uppselt á annað giggið. Hvað fáum við að heyra? „Við ætlum að gera þetta dálítið akkústískt og verðum með aukamenn með okkur. Í upphafi ferilsins gerðum við dálítið af þessu og fórum það sem við kölluðum kassatúr um landið. Þetta var áður en þetta komst í tísku með MTV unplugged og því dóti. Þarna eru ákveðnar rætur hjá okkur sem við ákváðum að snúa til í staðinn fyrir að sækja sinfónína eða guðspjallakór. Við verðum með gömul lög sem lítið hafa heyrst en hittarana líka þótt þeir komist ekki allir að.“ Og svo ert þú bara floginn til Berlínar og engin Síðan skein sól meira í bili? „Einmitt, en næsta plata er alltaf í pípunum. Ætli ég reyni ekki bara að draga strákana út til Berlínar í Hansa stúdíóið.“ Það má kannski segja að þú sért orðinn hálfgerður skrifstofukarl í Berlín. Saknarðu þess ekki að vera að leika og syngja? „Jú mikil ósköp, en ég hef fengið útrás í kvikmyndaleik á Íslandi. Maður fær aðeins að danglast með. Svo var ég reyndar að taka upp plötu með þýsku bigbandi um daginn, einmitt í Hansa-stúdíóinu. Þetta eru gamlir standardar, Cole Porter, Frankie og svona, og það er áhugi í Þýskalandi að gefa þetta út.“ Nú, hvað segirðu?! Og þarftu þá ekki að taka upp þýskt listamannanafn? „Nei, Helgi Björns bara. Þeir eru náttúrlega með ö-ið. Það er ekkert slæmt að vera með ö-i í Þýskalandi. En svo er auðvitað ákveðin listræn útrás sem maður fær í rekstrinum á leikhúsinu. Að búa til ný verkefni og þróa nýjar hugmyndir með leikstjórum og framleiðendum. Eftir alla uppbygginguna er þetta núna komið í það form sem ég sá fyrir mér þegar ég ákvað að demba mér út í þetta verkefni. Þetta er allt saman rosalega spennandi.“ n







×