Heilsa

Velkomin til... hérna, Kabúl

Gulleggin góðu.
Gulleggin góðu.
Blaðamaður Fréttablaðsins, Klemens Ólafur Þrastarson, heimsótti Íslensku friðargæsluna í Kabúl í Afganistan á dögunum. Margt bar fyrir augu og birtast hér brot úr dagbókum hans.  Þriðjudagur Íslensk páskaegg í Istanbúl
Lúnir ferðalangar í furstadæminu Mjúkir iðandi nuddstólar Sharjah-furstadæmisins reyndust ljúfir þessum langferðalöngum.
Erindreki utanríkisráðuneytis raskar svefni mínum um klukkan 4.30. Ferðalag uppá 6.660 kílómetra framundan. Fljúgum til Osló. Með rútu til flugvallar norska hersins. Erindrekinn er með kassa merktan Nóa-Síríus; flytur friðargæsluliðum páskana til Afganistans. Og á Nóa þekkjumst við á vellinum; íslenskur hergagnaframleiðandi heilsar upp á okkur. Hann er á sömu leið, á vegum og í búningi norska hersins. Kveðjum vestræna menningu með pulsu og kók.

Tyrkneskt leiguflug flytur okkur og hermennina til Istanbúl á þremur og hálfum tíma. Þar er okkur gert að bíða um nóttina í fríhöfninni í þrjá tíma til viðbótar. Undarlegur staður þessi tómlega fríhöfn. Verslanir loka ekki, þótt einungis sé ein vél með áhugalausum hermönnum um hituna. Mosku má finna í kjallaranum og norskur herprestur er á vappi. 3.581 kílómetri eftir. Miðvikudagur Velkomin til... hérna, Kabúl
Flugvöllurinn í Kabúl er gamall og slitinn Skorur liggja víða í malbiki flugvallarins í Kabúl. Um hann fara hundrað flugvélar á dag.
„Welcome to... e... Kabúl,“ náði hún loks að botna, tyrkneska flugfreyjan með aflitaða hárið. „Thank you for flying Pegasus Airlines,“ sagði hún næst við hermennina. Herflugið var hið ljúfasta; engin grenjandi börn og pláss til að leggja sig.

Það er sól í Kabúl og lýsir af hvítum toppum fjallahringsins sem umlykur borgarstæðið. Djúpar skorur í malbiki flugvallarins. Vél frá Aserbaídsjan á vinstri hönd, Kam-Air hægra megin, en það flugfélag er í eigu sterkefnaðra Hasara. Þeir eru til, þótt ekki sé svo að skilja á Flugdrekahlauparanum. Háaldraðir Volvo og Scania tankbílar standa moldugir í sólinni, án sjáanlegs hlutverks.

Erum heldur rislág eftir volkið í háloftunum. Framundan bíður að því er virðist fúlskeggjaður allsherjargoði í norskum herbúningi með útbreiddan faðminn. Hann heilsar okkur á íslensku. En þetta er víst ekki goði og búningurinn er íslenskur, eftir norskri fyrirmynd. Sá skeggjaði, Ingi Þór, útbýtir lyklum að svefngámum og býður upp á ömurlegt kaffi. Höldum í bíltúr um flugvöllinn, sem er eitt risavaxið framkvæmdasvæði og alþjóðleg herstöð.

Skyndilega heyrast sprengingar í fjarska. Enginn kippir sér neitt upp við það. En þegar þær endurtaka sig stuttu síðar vill Ingi Þór vita hver fjandinn sé á seyði og skokkar í átt að flugbrautinni til að átta sig. Já, þetta er í malarnámunni hér í austri. Ef þið heyrið sprengingar þaðan er ekkert að óttast. Sprengingar úr vestri, það væri önnur saga.

Seinna á ferð með öðrum friðargæsluliða. Hann tæmir tankbíl af einhverjum slökkvivökva ásamt bandarískum verktaka. Sá er ekki á því að hljóðin hafi borist úr malarnámunni og segir frá svipuðum hávaða fyrr í mánuðinum. Ekkert hafi verið um það rætt, en hann viti fyrir víst að þá hafi verið eldflaugaárás í höfuðborginni.

Um kvöldið er farið á eina af fjölmörgum krám á kampnum: Nordica, samskandinavískur staður. Bjórneysla á beis er takmörkuð við tvo skammta á mann. Fimmtudagur Villikettir þýska hersins
Íslenskir friðargæsluliðar ásamt Kermit Þeir Palli og Frikki tóku sig til og reistu bílalyftu í frítíma sínum. Þeir stilltu sér síðan upp við bílinn Kermit, sem var skreyttur samkvæmt pöntun Íslendinganna í Kabúl.Fréttablaðið/Klemens
Allah akbar! Ljúfur söngur morgun­bænarinnar rýfur annars andvökunótt. Tónarnir heyrast greinilega inn í gáminn, en moldarhús Kabúl-borgar standa rétt upp við girðingu flugvallarins.

Morgunmatur í stórum sal, sem tekur eflaust þúsund manns. Hunangsmelónur og sætar appelsínur, innfluttar frá Dubai-furstadæminu og framreiddar af Pakistönum og Filippseyingum. Hér eru allra þjóða kvikindi. 37 þjóðir standa hér opinberlega að alþjóðlegu hernámi/uppbyggingu. Jafnvel Albanar eru hér áberandi með sinn volduga arnarprýdda fána gnæfandi yfir eldhúsinu.

Hér á kampi eru fjölmargar verslanir sem selja bækur, búrkur, sælgæti og kúbverska vindla. Þýska búðin selur minjagripi um þýska herinn. Á einum bolnum, undir mynd af vopnuðum þýskum sérsveitarmönnum, stendur „Við gerum húsleit, UM ALLAN HEIM!“ Víst er sjálfstraust Þjóðverja að aukast.

Á drullugum götum ráfa villikettir í leit að rottum. Þeir eru ámátleg dýr og mjálma ekki, heldur æpa afar mannlega, svo kalt vatn rennur milli skinns og hörunds. Þeir eru varir um sig, enda réttdræpir pestberar.

Kabúl-sprænan sem rennur gegnum höfuðborgina liggur að flugvellinum, undir hann og út hinumegin. Lækurinn er opin skólprás borgarinnar. Sem betur fer er vindur máttlaus.

Í filippseyska kaffihússgámnum er þröngt og sest hjá mér frönsk/alsírsk herstúlka. Hún kom hingað sjálfviljug, en sér eftir því og hlakkar mikið til að komast heim að lifa eðlilegu lífi. „Sometimes, is like prison,“ segir hún mér dapurlega. Föstudagur Jarðsprengjur og belgísk nýlendustefnaKeyrum um næsta nágrenni. Þar eru miklar framkvæmdir, því innan skamms á að flytja hernaðarstarfsemina um set og koma þar upp borgaralegri starfstöð með fraktgeymslum og tilheyrandi. Í fimm ár hefur verið hér vestrænn her og enn er verið að hreinsa nánasta umhverfi herstöðvarinnar af jarðsprengjum. Sífellt finnast ný menguð svæði. Afganar eru vanir þessu og setja víst ekki efst á forgangslistann að segja Sameinuðu þjóðunum hvar jarðsprengjur megi hirða úr jörð. Það er grámyglulegt og blautt á jarðsprengu­svæðinu við flugvöllinn. Afganarnir standa þar í skotheldum vestum og pota prikum í jörðina.

Friðargæsluliði gerir mér ljóst að í Kabúl sé blaðamönnum ekki treyst. Nokkuð erfitt að fá Íslendingana í viðtal.

Um kvöldið spjalla ég við miðaldra belgíska lögreglumenn, sem ferðast víða við störf sín. Þeir segja mér frá ástandinu í Kongó. Torvelt sé að koma landinu í hendur heimamanna, sem nenni engu. Kongó­búar þjáist af „svörtu gáfnafari“ og vilji ekki læra. Því þurfi belgískir sérfræðingar og fyrirtæki að stjórna ýmsu þar, enn um sinn. Laugardagur Á bláþræði með Ice BabyHeimsæki bandarískan ofursta, sem dvelur í höfuðstöðvum Alþjóðlegu öryggissveitanna, ISAF. Til þess þarf bílalest. Minnst tvo brynvarða bíla og eina fimm breska sérsveitarmenn. Klæddur í níðþungt járnvesti og með hjálm á höfði. Bretarnir með vélbyssur. Bílferðin hefst á undirbúningsrapporti þar sem farið er yfir hvernig bregðast skuli við fyrirsát og hvað „sá eini sem eftir lifir“ eigi að gera, fari illa.

Keyrum gegnum bæinn og bílstjórinn virðist forðast allt sem nálgast bílinn, jafnvel lítil börn. Í hernaði leynast hætturnar víða.

Á leiðinni til baka eru sérsveitarmennirnir okkar beðnir að vernda vörubíl sem flytur vistir á flugvöllinn. Höldum af stað. Herjeppi fremst og aftast og vörubíllinn fyrir miðju. Á hringtorgi hverfur fremri herjeppinn skyndilega. Talstöðin dettur út um leið. Breski sérsveitarmaðurinn Ice Baby frá Suður-Afríku státar af sex ára reynslu, en fríkar út. „I’ve lost you, where are you mate?“ kallar hann í talstöð örvæntingarfullur á bílinn týnda. „Come in mate, please.“ Úr talstöðinni heyrist einungis suð. Lenti bíllinn í bílslysi eða einhverju verra? Ice Baby spyr hvaða viðvaningur sé eiginlega að keyra vörubílinn, sem við verndum nú ein. Sá keyrir ýmist of hratt eða hægt, eða stoppar, sem virðist vera stranglega bannað. Að læðist grunur að bílstjórinn sé ef til vill með talíbönum í liði, en honum er bægt frá. Á endanum róast Baby þegar hann nær sambandi eitthvað og síðan finnum við hinn jeppann við hliðið að herstöðinni. Batteríslaus talstöð og misskilningur. Ice biðst afsökunar að hafa misst stjórn á sér. Sunnudagur Sjálfboðavinna og íslensk menningGrátt og blautt og dauft yfir. Sunnudagur er hálfgildings frídagur hér. Þó eru tveir íslenskir friðargæsluliðar á fullu. Þeir eru í sjálfboðavinnu að koma upp bílalyftu hjá tékkneska spítalanum. Mikið þarfaverk, segja þeir. Verktakafyrirtækið, sem annars sér um svona framkvæmdir, sé svo gráðugt að það geri ekki neitt nema fá fyrir það greitt aukalega.

Meðal íslensku friðargæsluliðanna leynast hugsjónarmenn. Einn gæti lifað góðu lífi af eignum sínum, en vill samt starfa „fyrir þjóðina“, eins og hann orðar það. Það er samfélagsleg skylda hans að leggja sitt af mörkum til vestrænnar samvinnu. „Við ætlumst til þess að NATO verndi okkur og við eigum að gefa eitthvað í staðinn.“

Verslanir eru opnar í dag og í annað sinn í ferðinni sé ég íslenskar bækur til sölu. Það er kannski ekki að undrast að í bókabúðinni í Osló hafi Snorri Sturluson verið til sýnis á sértilboði, eða að Arnaldur Indriðason hafi átt þar nokkra titla. Það er hins vegar nokkuð sérstakt að finna téðan Arnald, þýddan á þýsku, inni í filippseyskri fríverslunargámabúð í Afganistan. Við hlið hans Flateyjargáta Viktors Arnars. Mánudagur Málsverður með innfæddumAnna-Grete Strøm-Erichsen, sá geðþekki varnarmálaráðherra Noregs, er í skreppiheimsókn á vellinum, að heilsa upp á strákana sína. Það þýðir að við fljúgum ekki heim með Norðmönnum á morgun. Hún og fylgdarlið fylla vélina.

Árás á bílalest bandaríska sendiráðsins. Sjálfsmorðssprengjumaður keyrði inn í hana og sprengdi sig í loft upp. Margrir aðrir særðust og einn alvarlega. Þetta var samskonar bílalest og við ferðuðumst í daginn áður, á sama vegi.

Um kvöldið býður forsvarsmaður íslensku friðargæslunnar í Kabúl í mat, að hætti innfæddra. Íslendingar og vinir þeirra sitja veisluna. Azimy er afganskur athafnamaður sem hefur tengst Íslendingunum. Þeim er stundum leyft að lauma honum inn á kampinn til að halda veislur fyrir góða gesti.

Azimy og konan hans elduðu glás af kjúklingi og hrísgrjónum og einhverjum pastalegum kjötfyllum, ásamt grænmeti og afbragðs naan-brauði. Ilmur af kardimommu og engifer. Besti matur ferðarinnar. Azimy heldur langa ræðu um þakklæti sitt til þeirra sem starfa að uppbyggingar­starfi í Afganistan og halda talíbönum í fjarlægð.

Seint um kvöldið rekst ég á varnarmálaráðherrann þar sem hún er að koma sér fyrir í næsta gámi. Hún brosir breitt þegar ég kynni mig sem íslenskan blaðamann og leyfir mér að taka af sér nokkrar myndir, en er dauðþreytt eftir daginn og ferðalagið og ég læt hana í friði. Þriðjudagur Segðu mér, eru Rússarnir farnir?Heimsækjum Dani. Þeir eru hér með farandratsjár tvær, sem framleiddar voru við lok kalda stríðsins. Þær skorti síðan hlutverk í breyttri heimsmynd. Ein slík kostar um 200 milljónir og þarf fjóra menn til að reka hana. Þessar afgangsratsjár skipta sköpum við rekstur flugvallarins, því dönsku ratsjárnar eru þær einu sem hér eru.

Fer til höfuðstöðvanna aftur og býst við hertri öryggisgæslu í þessari ferð, vegna árásarinnar í gær. Ónei. Í þetta sinn er ferðast í einum jeppa. Fylgdarmenn eru einungis tveir. Afar holdugir mótorhjólaþjóðverjar með prússnesk yfirvaraskegg. Þeir spila Rammstein og keyra ósköp rólega. Alles klar.

Heyrði sögu af norska hernum. Ein herdeilda hans heimsótti í vikunni þorp norður í landi. Öldungur þorpsins kom að og skoðaði þá hátt og lágt. Muldraði „Noregur?“ Gekk svo að túlknum og heilsaði honum forvitinn. „Segðu mér, eru Rússarnir farnir?“

Sagan segir margt um hvers vegna Rússar gáfust upp og fóru árið 1989. Hér er allt afskekkt nema fjöllin. Þau liggja þétt saman; fjall í fjall. Þorpin eru svo einhver­staðar þar sem lækur rennur milli fjallanna. Aðra sögu og dapurlegri hef ég einnig frá Norðmönnum, um grafreit sem var fylltur með jarðsprengjum.

Flugáætlun hefur enn verið breytt. Heim með hollenska hernum á morgun. Miðvikudagur Hermennska er ekki máliðManntal í hollenska félagsheimilinu klukkan 6.30. Yfirmaður geltir upp ómstríð nöfn manna sinna í stafrófstöð. Þeir gefa sig fram og sýna vegabréf og borgaraleg klæði í aukatösku. Nema einn. Sá er ekki með borgaraleg klæði, en þau eru skilyrði þess að þessi herflugvél fái að lenda í Dubai. Þeir mega ekki ganga um í einkennisbúningum þar. Þessi eini er skilinn eftir.

Í vélinni sit ég við hlið ungs hermanns, sem hefur verið sjö ár í hernum. Nú er hann hættur. „Afganistan kenndi mér að þetta er ekki málið,“ segir hann og talar með hryllingi um bardaga í eyðimörkinni.

Lendum svo ekki í Dubai, heldur í Sharjah, sem er annað furstadæmi. Á flugvellinum er moska karla hjá karlaklósettunum en bænahús kvenna hjá kvennaklósettinu. 6.900 kílómetrar heim.

Lendum ekki á Kýpur, heldur Krít. Þar eiga hollensku hermennirnir að fá tveggja daga útrás áður en þeim er hleypt til Hollands, því þeir hafa ekki drukkið bjór í fjóra mánuði. „Þeir segja að það sé okkur fyrir bestu,“ segir sessunautur minn.

Hoppum út á Krít og hermennirnir fara að drekka, en við fljúgum áfram til Eindhoven. Ferðin heim til Evrópu tók nærri 23 tíma og enn eru 2.000 kílómetrar eftir. n







×