Viðskipti innlent

Mikil fjölgun hluthafa í skráðum fyrirtækjum

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Hluthöfum í íslenskum almenningshlutafélögum fjölgaði mikið á árinu 2006 samanborið við árið 2005. Um síðustu áramót áttu um 200 þúsund fjárfestar hlutabréf í fyrirtækjum í Kauphöll Íslands sem var fjölgun um 74 þúsund hluthafa frá ársbyrjun miðað við skráð fyrirtæki í árslok 2005. Hafa ber í huga að hér er ekki um að ræða 200 þúsund sjálfstæða aðila þar sem margir fjárfestar eiga hlutabréf í fleiri en einu fyrirtæki.

Fjölgunin skýrist af tveimur þáttum: nýjum félögum og arðgreiðslum í formi hlutabréfa.

Innan vébanda sex félaga voru yfir tuttugu þúsund hluthafar um síðustu áramót en þetta voru Kaupþing, Exista, Landsbankinn, Hf. Eimskipafélagið, Icelandic Group og Straumur-Burðarás. Kaupþing var fjölmennasta almenningshlutafélagið í árslok en 31.730 fjárfestar áttu þá hluti í félaginu. Exista kom skammt á eftir en hluthöfum fjölgaði úr tíu í 31.410 á árinu þegar félagið var skráð á markað eftir hlutafjárútboð til almennra fjárfesta og fagfjárfesta. Þá hafði það ekki síður áhrif að Kaupþing greiddi út til hluthafa sinna aukaarð í formi eigin hlutabréfa í Existu.

Þá varð veruleg fjölgun hluthafa í Hf. Eimskipa­félaginu og Icelandic Group þegar Straumur-Burðarás greiddi út hluta af eigin bréfum í félögunum sem arð til hluthafa sinna. Hf. Eimskipafélagið, sem áður nefndist Avion Group, var skráð á markað í janúar að undangengnu útboði til fagfjárfesta.

Icelandair Group var einnig skráð í Kauphöll í kjölfar útboðs. Yfir 1.500 hluthafar áttu bréf í félaginu í lok árs en FL Group átti félagið að öllu leyti í upphafi ársins. Teymi fór ennfremur á markað þegar Dagsbrún var skipt upp í tvö skráð félög, annars vegar 365 hf. og hins vegar Teymi. Hluthafar í 365 fengu hlutabréf í Teymi.

Hluthöfum fækkaði á milli ára í stóru fjármála­fyrirtækjunum Kaupþingi, FL Group, Landsbankanum og Straumi en fjölgaði í Glitni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×