Viðskipti erlent

Gjensidige stefnir að skráningu

Gjensidige Forsikring, norska fjármálafyrirtækið sem á tæp tíu prósent í Storebrand, stefnir að skráningu í Kauphöllina í Osló á seinni hluta ársins til þess að vera betur í stakk búið til að taka þátt í umbreytingum á norskum fjármálamarkaði.

Félagið var stærsti hluthafinn í Storebrand með 9,99 prósent áður en Kaupþing fór yfir tíu prósenta hlut í vikunni.

Gjensidige er eins og nafnið gefur til kynna gagnkvæmt tryggingafélag og er því skilgreint í eigu tryggingataka. Félagið er stærsta tryggingafélag Noregs sem er ekki í líftryggingastarfsemi, með yfir þrjátíu prósenta markaðshlutdeild. Storebrand er aftur á móti eitt stærsta félag Noregs í líftryggingum og lífeyrissparnaði. Sá áhugi sem Gjensidige sýnir Storebrand þarf því ekki að koma á óvart.

Á síðasta ári hagnaðist Gjensidige um tæpa 36 milljarða króna, sem meðal annars má þakka drjúgum söluhagnaði af hlutabréfum í DnBNOR. Tryggingastarfsemi reyndist einnig arðbær.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×