Viðskipti erlent

Sjötíu milljarðar króna í arðgreiðslur

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar

Eftir að aðalfundir stærstu fjármálafyrirtækja og fjárfestingarfélaga landsins hafa runnið skeið sitt á enda munu þúsundir hluthafar í þeim hafa fengið rúman 71 milljarð króna í arðgreiðslur. Þetta er um 23 prósent af samanlögðum hagnaði félaganna í fyrra. Af þessum 71 milljarði rennur tíund í ríkiskassann, eða 7,1 milljarður króna, í formi fjármagnstekjuskatts.

Erfitt getur verið að bera þessa fjárhæð saman við arðgreiðslur á síðasta ári. Ef aukaarður Kaupþings á haustdögum í formi Exista-hlutabréfa er undanskilinn þá greiddu sömu fyrirtæki út tæpa 37,8 milljarða. Aukningin er því um 88 prósent á milli ára. Ef aukaarðurinn, sem nam 18,3 milljörðum, er meðtalinn þá er aukningin talsvert minni, um 27 prósent.

FL Group greiðir hæsta arðinn en fimmtán milljarðar renna til eigenda félagsins sem svarar til 193 prósenta arðs af nafnverði hlutafjár. Ætla má að ekkert fyrirtæki í Íslandssögunni hafi greitt eins mikinn arð út á einu bretti ef frá er talinn áðurnefndur aukaarður Kaupþings. FL hagnaðist um 44,6 milljarða króna í fyrra þannig að arðgreiðslan nemur um þriðjungi af árshagnaði félagsins.

Fyrir aðalfundum Existu og Kaupþings liggja tillögur um að greiddir verði yfir tíu milljarðar króna til hluthafa hvors félags. Þetta svarar til 29 prósenta af hagnaði Existu en 12,2 prósenta af árshagnaði Kaupþings.

Glitnir og SPRON greiða um níu milljarða í arð. Hluthöfum í Glitni bauðst að fá hluta arðsins í formi hlutabréfa bankans. Heildarupphæðin er fjórðungur af hagnaði bankans í fyrra. SPRON greiðir tæpa níu milljarða í arð til stofnfjáreigenda en það samsvarar nærri öllum árshagnaði fyrirtækisins.

Straumur borgar 75 prósent af nafnverði hlutafjár í arð, það er 7.769 milljónir króna. Arðurinn nemur 17,2 prósentum af hagnaði ársins 2006. Landsbankinn greiðir rúma 4,4 milljarða í arð eða ellefu prósent af hagnaði síðasta árs. Atorka greiðir um helming af hagnaðinum í arð, það er 3,3 milljarða. TM borgar hins vegar mestan arð út sem hlutfall af árshagnaði. Félagið stefnir að eins milljarðs arðgreiðslu til hluthafa en það hagnaðist um 696 milljónir í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×