Viðskipti erlent

Stýrivextir hækkaðir á evrusvæðinu

Evrópski seðlabankinn ákvað í gær að hækka stýrivexti um 25 punkta með það fyrir augum að draga úr verðbólgu á evrusvæðinu. Stýrivextirnir standa nú í 3,75 prósentum og hafa þeir ekki verið hærri í rúm fimm ár. Á sama tíma ákvað Englandsbanki að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum. Greinendur bjuggust flestir við þessum niðurstöðum.

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, hefur ítrekað sagt að bankinn muni fylgjast grannt með verðbólguþróun í evrulöndunum þrettán og muni bregðast við sýnist honum sem verðbólguhorfur séu að versna. Þrátt fyrir þetta hefur nokkuð dregið úr verðbólgu en hún mældist 1,8 prósent í janúar samanborið við 1,9 prósent í lok síðasta árs. Það er 0,2 prósentum undir verðbólgumarkmiðum bankans.

Greinendur segja engu að síður líkur á frekari hækkun vaxta á evrusvæðinu á árinu og benda á að allt stefni í að vextirnir muni standa nær fjórum prósentum undir lok árs.

Þeir útiloka þó ekki að stýrivextir hækki á næstunni í Bretlandi þrátt fyrir 0,3 prósentustiga verðbólgulækkun í febrúar sem er nokkuð yfir verðbólgumarkmiðum Englandsbanka. Verðbólga mældist þrjú prósent í janúar og höfðu sambærilegar tölur ekki sést í ellefu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×