Lífið

Stofna hollvinasamtök

Lára Jónsdóttir.
Framkvæmdastjóri Fulbright á Íslandi segir stofnunina hafa hjálpað fólki alveg heilmikið.
Lára Jónsdóttir. Framkvæmdastjóri Fulbright á Íslandi segir stofnunina hafa hjálpað fólki alveg heilmikið. MYND/Heiða

Fimmtíu ár eru liðin síðan tvíhliða samningur á milli Íslands og Bandaríkjanna um Fulbright-stofnunina á Íslandi var undirritaður.

Af því tilefni var boðað til móttöku í Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag. Heiðursgestur var frú Harriet Fulbright, ekkja J. Williams Fulbrights, stofnanda samtakanna, sem er stödd hér á landi í fyrsta sinn.

„Það er í rauninni mögnuð starfsemi sem fer fram hjá Fulbright víða um heim. Hvað okkur varðar þá hafa milli 1200 til 1300 manns fengið styrki, bæði Íslendingar og Bandaríkjamenn, og þetta hefur hjálpað fólki alveg heilmikið,“ segir Lára Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fulbright á Íslandi.

Fulbright veitir einnig námsráðgjöf til þeirra sem hyggja á nám í Bandaríkjunum auk þess sem fræði- og listamenn eiga kost á því að fá styrki í gegnum stofnunina.

Á meðal þekktra nemenda sem hafa fengið Fulbright-styrk í gegnum tíðina má nefna Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, Ásdísi Höllu Bragadóttur, Sigríði Snævarr, Sigurjón Sighvatsson og Hannes Hólmstein Gissurarson. „Að fá Fulbright-styrk felst ekki bara í því að fá peninga nánast án allra kvaða heldur er Fulbright líka svo virt. Það hjálpar þér að komast inn í skóla og að fá vinnu seinna meir. Það er afar mikils virði að geta haft þetta á ferilsskránni,“ segir Lára.

Til stendur að stofna hollvinasamtök fyrrverandi Fulbright-styrkþega sem eiga að styðja við bakið á stofnuninni og styrkþegunum. Sendar verða út tilkynningar á næstunni til þeirra íslensku styrkþega sem Fulbright hefur upplýsingar um. Lára vill biðja þá sem ekki næst samband við og vilja taka þátt, endilega að hafa samband við Fulbright-stofnunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.