Lífið

Unnur andlit íslenska hestsins

Unnur Birna er mikill hestaáhugamanneskja og er ekki óvön því að ríða út.
Unnur Birna er mikill hestaáhugamanneskja og er ekki óvön því að ríða út.

Einhver frægasta sýning Bandaríkjanna á ís, Ice Capades, hefur gert samstarfssamning við Icelandics on Ice um sýningar í öllum stærstu borgum Bandaríkjanna. Um er að ræða gríðarlega landkynningu fyrir Ísland og ekki síður íslenska hestinn en reiknað er með að rúmlega 800 þúsund komi til með að skoða sýninguna augum.

Ráðgert er að senda út til Bandaríkjanna tíu knapa og hestastóð en frægasti knapinn verður sennilega Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, fyrrum alheimsfegurðardrottning. „Já, ég tek þátt í völdum sýningum, aðstoða við markaðssetningu og tek þátt í hestaatriði sem verður mjög flott. Verð svona andlit íslenska hestsins út á við og sýningarinnar,“ segir Unnur Birna. Um er að ræða hundrað sýningar en Unnur mun aðeins taka þátt í þeim stærstu, þar á meðal frumsýningunni sem verður í New York og stórri hestaveislu í Los Angeles.

Annars sagðist Unnur Birna vera að einbeita sér að laganáminu í HR en vildi lítið tjá sig um kvikmyndatilboð frá Bollywood á Indlandi en sögusagnir um það hafa lengi verið á kreiki. „Þetta er á algjöru byrjunarstigi,“ segir Unnur.

Björn Ólafsson, forsvarsmaður Icelandics On Ice, sagði þetta vera einhverja mestu landkyninngu sem Ísland hefði fengið í Bandaríkjunum um langt skeið. „Við reiknum með að koma í spjallþætti á borð við Good Morning America og svona mætti lengi telja,“ segir Björn en morgunþátturinn er einn sá vinsælasti í bandarísku sjónvarpi. Þá gætu spjallþáttastjórnendur á borð við Jay Leno og David Letterman sýnt þessu einhvern áhuga. „Þetta er kynning í mjög miklu návígi og mikið markaðssett,“ bætir Björn við sem var að vonum ánægður með liðstyrkinn í Unni Birnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.