Viðskipti innlent

Fleiri horfa til fjárfestinga í orkugeira

Í lok síðustu viku tilkynntu Landsbankinn og Landsvirkjun á sameiginlegum blaðamannafundi um stofnun alþjóðlega fjárfestingarfélagsins HydroKraft Invest sem ætlað er að fjárfesta á erlendri grundu í verkefnum sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu. HydroKraft Invest er ætlað að leiða umbótaverkefni á sviði orkumála erlendis, einkum í Evrópu.

Félagið er af svipuðum meiði og Geysir Green Energy nema hvað að áherslan er á fjárfestingar á sviði vatnsafls en ekki jarðvarma líkt og hjá Geysi. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, lagði enda áherslu á það á fundinum þar sem félagið var kynnt að nóg pláss væri í heiminum fyrir marga aðila á þessu sviði fjárfestinga. Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsvirkjunar sagði ekki síst horft til þess að koma inn í endurbyggingu og endurnýjun eldri virkjana, en einni væri horft til nýbygginga vatnsaflsvirkjanna, stórra sem smárra.

Þar sem HydroKraft er alveg nýstofnað hefur þar ekki enn verið ráðinn framkvæmdastjóri og ekki komin endanleg mynd á starfsemina Sigurjón Þ. Árnason sagði að stofnfé félagsins væri „dágóð innlögn" en síðan yrði gengið í að afla meira fjármagns eftir verkefnastöðu hverju sinni.

Landsbankinn og Landsvirkjun eiga jafnan hlut í félaginu þar sem hvor leggur til tvo milljarða króna í hlutafé. Verður síðan á næstunni safnað hlutafé hér á landi þar sem Landsbankinn hefur tryggt sölu á hlutafé í félaginu fyrir einn milljarð króna til viðbótar. Í kjölfarið á að skrá HydroKraft Invest á erlendan hlutabréfamarkað.

Líkt og Geysir segjast forsvarsmenn HydroKraft byggja á innlendri sérþekkingu í orkumálum og fjáfestingarþekkingu úr fjármálageiranum sem komi félaginu í fremstu röð fjárfestingafélaga á sínu sviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×