Viðskipti innlent

Rós í hnappagatið

Bæta við sig blómum. WCC Floris er við það að eignast Blooms.
Bæta við sig blómum. WCC Floris er við það að eignast Blooms.

Sir Tom Hunter, Baugur Group og aðrir viðskiptafélagar í fjárfestahópnum West Coast Capital Floris, sem stóðu að yfirtöku á Wyvale Garden Centres í júní í fyrra, bættu annarri breskri blómakeðju í safnið í síðustu viku þegar þeir lögðu fram formlegt yfirtökutilboð í garðvöruverslanakeðjuna Blooms of Bressingham.

Kaupverðið nemur þrjátíu milljónum sterlingspunda, jafnvirði 3,9 milljörðum króna.

Hugsanlegt er talið að Blooms og Wyevale verði sameinuð í eitt en samtals ræður WCC Floris nú yfir 123 garðvöruverslunum. Horft er fram á mikla samþjöppun á breskum garðvöruverslunum. Fjárfestateymið gæti komið mikið við sögu því til viðbótar á það 29,9 prósent í Flying Brands, netvöruverslun með garðvörur, og átta prósent í garðvöruverslanakeðjunni Dobbies Garden.

Getgátur hafa verið uppi um að WCC Floris ráðist líka í yfirtöku á Dobbies en gengi hlutabréfa í síðarnefnda félaginu hefur rokið upp á síðustu dögum.

Einnig telja menn töluverð verðmæti liggja í fasteignum og lóðum sem annaðhvort mætti byggja á eða selja til fjárfesta. Hunter hefur sjálfur hagnast gríðarlega á fasteignaviðskiptum. Þannig er markaðsvirði Dobbies litlu hærra en bókfært virði seljanlegra eigna.

En einnig er horft fram á töluverðan vöxt í geiranum. Í Sunday Telegraph er bent á sívaxandi hóp fólks 65 ára og eldra sem býr yfir auknum kaupmætti. Þannig hefur samanlagður kaupmáttur þessa hóps sjöfaldast á síðustu tuttugu árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×