Lífið

Britney rakaði sjálf af sér hárið

sköllótt Britney Spears er orðin sköllótt eftir að hún rakaði sjálf af sér hárið á hárgreiðslustofu. 
Fréttablaðið/ap
sköllótt Britney Spears er orðin sköllótt eftir að hún rakaði sjálf af sér hárið á hárgreiðslustofu. Fréttablaðið/ap

Poppprinsessan sköllótta Britney Spears rakaði sjálf af sér hárið á hárgreiðslustofu í Los Angeles eftir að hárgreiðslukonan neitaði að verða að ósk hennar. Er hárið nú til sölu á uppboðssíðunni Ebay fyrir tæpar 72 milljónir króna.

„Ég reyndi að telja henni hughvarf. Ég spurði: Ertu viss um að þér líði ekki bara eitthvað illa í dag og verðir á annarri skoðun á morgun? Hvers vegna bíðurðu ekki aðeins með þetta?“ sagði Esther Tognozzi, eigandi hárgreiðslustofunnar í viðtali við CNN. „Þá sagði hún: Nei, ég vil pottþétt raka hárið af núna. Það næsta sem ég sá var að hún greip rakvélina, fór baka til og rakaði hárið af sjálf.“

Eftir þetta ók Britney til húðflúrara þar sem hún fékk sér tvö húðflúr. Fyrst lét hún setja rauðar varir á úlnlið sinn og síðan hvítan og bleikan kross á mjöðmina.

Erlendir fjölmiðlar telja að Britney eigi við mikil vandamál að stríða og þurfi augljóslega á sálfræðiaðstoð að halda. Hún er sögð ramba á barmi taugaáfalls af ótta við að missa forræði sitt yfir sonum sínum tveimur til fyrrverandi eiginmanns síns, Kevin Federline.

Lögfræðingar Federline hafa útmálað Britney sem óhæfa móður sem eigi við drykkjuvandamál að stríða.

Britney skráði sig í meðferð síðastliðinn fimmtudag eftir fjögurra daga fyllirí í New York. Innan við sólarhring síðar sneri hún aftur heim til Kaliforníu, hitti syni sína áður en hún rakaði af sér hárið og lét húðflúra sig. Að því loknu sást til Britney með svarta hárkollu á læknasetri í Beverly Hills þar sem hún ræddi við starfsfólk í afviknu herbergi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.