Lífið

Lager Indriða til sölu

Lager Indriða klæðskera, heitins, verður til sölu í Saltfélaginu á næstunni.
Lager Indriða klæðskera, heitins, verður til sölu í Saltfélaginu á næstunni. MYND/Vilhelm

Lager Indriða klæðskera, heitins, er á leið til landsins frá Kaupmannahöfn og verður til sölu í tvær vikur, frá næstkomandi sunnudegi til 3. mars, í Saltfélaginu við Grandagarð 2.

Verslun Indriða var áður á Skólavörðustígnum eða þar til hann flutti verslun sína til Kaupmannahafnar í apríl í fyrra. Styrmir Goðason var Indriða innan handar við rekstur verslanana, bæði hér heima og í Danmörku og hann ætlar að vera til staðar í Saltfélaginu þessar tvær vikur. Styrmir segir að lagerinn sé ekki stór en eitthvað er til af öllu. „Eins og áður verður áherslan lögð á að leysa vandamál þeirra sem leggja leið sína til okkar en ég lærði sitthvað um lausnir vandamála af Indriða sjálfum. Kannski reyni ég að pranga inn á fólk ljótum slaufum í leiðinni, það er nóg til af þeim,“ segir Styrmir, sem telur að nokkur hundruð skyrtur og um sextíu jakkaföt verði til sölu.

Styrmir segir að töluvert hafi verið um að fólk hafi nálgast hann með fyrirspurnir um hvernig hægt sé að nálgast Indriða-skyrtur og þetta sé viðleitni til að koma til móts við þá. „Það hefur fullt af fólki haft samband og spurt hvort það verði eitthvað meira. Ég býst ekki við því að það verði haldið áfram að framleiða undir hans merkjum. Það eru fáir sem treysta sér í að halda áfram því sem hans fagmennska hafði upp á að bjóða,“ segir hann. Indriði klæðskeri lést í Kaupmannahöfn í lok síðasta árs, langt fyrir aldur fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.