Viðskipti erlent

Refresco til Austur-Evrópu

Refresco Holding, sem FL Group á 49 prósenta hlut í, hefur keypt pólska drykkjarvöruframleiðandann Kentpol sem framleiðir vatns- og gosdrykkjavörur. Er þetta fyrsta yfirtaka félagsins á þeim markaði sem vænst er að muni vaxa hratt á næstunni.

Í Morgunkorni Glitnis segir að þrátt fyrir að félagið sé lítið í samanburði við Refresco muni það opna leiðir inn á markaði í Austur-Evrópu. Velta Kentpol á síðasta ári var 34 milljónir evra samanborið við 660 milljóna evra veltu Refresco.

Á afkomufundi hjá FL Group í síðustu viku boðaði FL Group tvö- til þreföldun veltu Refresco á næstu tólf til átján mánuðum. Félagið hefur skilgreint drykkjarvöruiðnaðinn sem einn af þeim mörkuðum sem félagið leggur mesta áherslu á í fjárfestingum. Því væntir greiningardeild Glitnis frekari fjárfestinga hjá félaginu á næstu vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×