Viðskipti innlent

Icelandair semur við Air Malta

Airbus vél. Latcharter LatCharter Airlines er lettneskt dótturfélag Loftleiða Icelandic. Félagið hefur gert stóran samning við maltneska ríkisflugfélagið Air Malta.
Airbus vél. Latcharter LatCharter Airlines er lettneskt dótturfélag Loftleiða Icelandic. Félagið hefur gert stóran samning við maltneska ríkisflugfélagið Air Malta.

Icelandair Group hefur gert samning við Air Malta upp á rúman milljarð króna. Í tilkynningu félagsins kemur fram að LatCharter Airlines, dótturfélag Loftleiða Icelandic, hafi gert samning við maltneska ríkisflugfélagið Air Malta um leigu á einni Airbus A320 þotu til tveggja ára.

„Airbus þotan, sem áður var í rekstri hjá Air Canada, verður sú þriðja sem bætist við flota LatCharter á þessu ári. Fimm þotur verða þar með í rekstri hjá LatCharter Airlines. LatCharter tekur þoturnar á leigu frá bandaríska flugvélaleigufyrirtækinu KJ Aviation,“ segir í tilkynningur Icelandair Group.

Loftleiðir, sem er eitt dótturfélaga Icelandair Group, eignuðust LatCharter Airlines á miðju síðasta ári. Félagið hafði þá tvær Airbus þotur í rekstri. „Sá floti hefur vaxið um 150 prósent með þessum samningi,“ segir félagið, en gert er ráð fyrir að floti félagsins vaxi enn frekar á næstunni.

Haft er eftir Valery Litanski rekstrarstjóra LatCharter að ánægjulegt sé hversu vel hafi tekist til við innleiðinguna á nýju þotunum.

Sigþór Einarsson stjórnarformaður LatCharter og Loftleiða-Icelandic segir góðan áfanga hafa náðst í markaðssókn félagsins sem lagt hafi verið upp í með kaupunum á LatCharter Airlines. „Meginmarkmið með þeim kaupum var að breikka vöru- og þjónustuframboð Loftleiða-Icelandic á sviði alþjóðlegra flugvélaviðskipta. Það er ánægjulegt að sjá að þessi stefna okkar er að skila árangri hraðar en björtustu vonir stóðu til,“ er eftir honum haft í tilkynningur Icelandair Group.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×