Viðskipti erlent

Dell tekur við Dell

Michael Dell. Stofnandi bandaríska tölvurisans Dell hefur sest að nýju í forstjórastól fyrirtækisins til að snúa rekstri fyrirtækisins til betri vegar.
Michael Dell. Stofnandi bandaríska tölvurisans Dell hefur sest að nýju í forstjórastól fyrirtækisins til að snúa rekstri fyrirtækisins til betri vegar. MYND/AFP

Michael Dell, stofnandi bandaríska tölvurisans Dell, settist í forstjórastól fyrirtækisins að nýju um miðja síðustu viku eftir að fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins tók pokann sinn í kjölfar lélegrar afkomu tölvurisans á síðasta rekstrarfjórðungi nýliðins árs.

Michael Dell stofnaði fyrirtækið á háskólaárum sínum árið 1984 og sat sem forstjóri í tuttugu ár en þá tók hann við stöðu stjórnarformanns.

Kevin Rollins, fráfarandi forstjóri Dell, þykir ekki hafa skilað af sér góðu verki en gengi fyrirtækisins hefur dalað allt frá því hann tók við árið 2004 auk þess sem fyrirtækið hefur ekki staðið undir væntingum markaðsaðila. Þá hafa fjármálayfirvöld í Bandaríkjunum Dell undir smásjá sinni en grunur leikur á að skekkja sé í bókhaldi fyrirtækisins.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur hækkað um fimm prósent frá forstjóraskiptunum. Greinendur segja engu að síður að Michael Dell verði að spýta í lófana eigi honum að takast að laga til í rekstrinum og hindra að Hewlett-Packard, helsti keppinautur fyrirtækisins, geti nýtt sér tækifærið og náð til sín stærri sneið á tölvumarkaðnum vestanhafs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×