Lífið

Meistarinn í stúdentapólitíkina

Jónas Örn ætlar ekki að verja titilinn heldur einbeita sér að skólanum og pólitíkinni.
Jónas Örn ætlar ekki að verja titilinn heldur einbeita sér að skólanum og pólitíkinni.

„Ekki blundar nú í mér mikill stjórnmálamaður, í það minnsta ekki ennþá,“ segir Jónas Örn Helgason, handhafi nafnbótarinnar Meistarinn eftir sigur í samnefndum spurningaþætti Loga Bergmanns Eiðssonar. Jónas situr í sextánda sæti á lista Röskvu til Stúdentaráðs en varla hefur það farið framhjá nokkrum háskólastúdent að stúdentakosningar eru á næsta leyti.

„Ég hef þó vissulega ákveðnar skoðanir og skoðaði aðeins minn hug. Ákvað síðan að láta til mín taka,“ bætir hann við.

Jónas ætlar ekki að verja titilinn heldur einbeitir sér alfarið að skólanum og pólitíkinni. „Ég komst að þessari niðurstöðu fyrir ekki margt löngu. Skólinn tekur sinn toll og svo eru bara aðrir hlutir sem eru mikilvægari um þessar mundir,“ útskýrir Jónas sem hittir fyrir fornan fjanda hjá Röskvu því gamall andstæðingur hans úr þáttunum, Steinþór Helgi Arnsteinsson, er einnig á lista Röskvu.

„Við erum fínir félagar, bárum út kosningablaðið saman og styttum okkur stundir með léttri spurningakeppni.“

Aðspurður hvort stjórnmálaaflið fengi að njóta sérstaks fjárstuðnings sökum vinningfjársins úr Meistaranum vildi Jónas lítið um það segja.

Hann er þó ekki eina sjónvarpsstjarnan sem er á mála hjá Röskvu því þar er einnig að finna Jóhönnu Völu sem margir Idol-aðdáendur ættu að kannast við. Hún stóð eftirminnilega uppí hárinu á Bubba Morthens og vakti athygli fyrir sérstaka frammistöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.