Skoðun

Stóriðjusovét Sjálfstæðisflokksins

Árni Páll Árnason skrifar
Forystumenn stjórnarflokkanna klifa nú á því að engin stóriðjustefna sé rekin af hálfu hins opinbera og ákvarðanir um virkjanir séu teknar í frjálsum viðskiptum milli orkukaupenda og orku-fyrirtækja. Þetta er tómur þvættingur. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um sovéskt efnahagskerfi í stóriðjusölu.

Opinber orkufyrirtæki hafa notið sérréttinda til að reka raforkuver og hitaveitur. Þessara réttinda var upphaflega þörf til að tryggja okkur öllum ljós og hita í hús og orku til innlendrar atvinnustarfsemi. Í krafti þeirra höfðu fyrirtækin möguleika til að taka nauðsynlegar auðlindir eignarnámi og afla fjár til þeirra verkefna með ríkis-ábyrgð.

Lítum á staðreyndir. Opinber orkufyrirtæki geta krafist eignarnáms á orkulindum sem þau vilja nota við orkuöflun til stóriðju. Ákvæði um eignarnám, sem sett voru til að tryggja öflun á orku til íslensks almennings, eru í dag misnotuð til að fyrirtækin geti sölsað undir sig orkuauðlindir án þess að greiða umráðamönnum þeirra markaðsverð í frjálsum viðskiptum. Þessi fyrirtæki afla sér ekki heldur lánsfjár á markaðskjörum, þar sem þau njóta ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga.

Skattgreiðendur niðurgreiða því orkusölu til stóriðju. Þess vegna þarf aldrei að upplýsa um orkuverð, því erlendir lánardrottnar líta svo á þeir séu að lána ríkinu peningana.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn meinar eitthvað með sífri sínu um mikilvægi markaðslausna og nýfundinn áhuga á umhverfismálum getur hann gert tvennt í skyndi: Afnumið heimildir orkufyrirtækja til eignarnáms nema þegar um er að ræða virkjanir í þágu almennings og bannað orkufyrirtækjum að afla fjár til raforkuuppbyggingar vegna stóriðju nema með því að stofna um hana sérstök hlutafélög, sem þyrftu þá að afla fjár á markaðskjörum. Og þá myndi lítið þýða að halda orkuverðinu leyndu fyrir erlendum fjárfestum.

Þetta myndi marka fyrstu teiknin um fráhvarf Sjálfstæðisflokksins frá sovéskum stjórnarháttum í efnahags- og atvinnulífi.

Höfundur er lögfræðingur og skipar 4. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×