Erlent

Ánægja með lofthelgiseftirlit

Lauri Allmann, ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytis Eistlands, og Matti Maasikas, ráðuneytis-stjóri eistneska utanríkisráðuneytisins.
Lauri Allmann, ráðuneytisstjóri varnarmálaráðuneytis Eistlands, og Matti Maasikas, ráðuneytis-stjóri eistneska utanríkisráðuneytisins. MYND/GVA

Eistar eru hæstánægðir með reynsluna af aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, ekki síst lofthelgiseftirlitinu sem NATO hefur séð þeim og hinum Eystrasaltsþjóðunum; Lettum og Litháum, fyrir frá því þjóðirnar þrjár gengu í bandalagið vorið 2004.

Þetta segja ráðuneytisstjórar ráðuneyta varnarmála og utanríkis-mála í Eistlandi, þeir Lauri Allmann og Matti Maasikas, en þeir voru í hópi háttsettra eistneskra embættismanna sem voru í fræðsluferð hér á landi á vegum Rannsóknaseturs um smáríki við Háskóla Íslands.

Allmann segir Eista ekki stefna að því að koma sér upp eigin flugher. „Bandalagsþjóðirnar í Evrópu ráða yfir yfrið nægum flugherafla og út frá heildarhagsmunum bandalagsins séð er það því skynsamlegast að við einbeitum okkur að því að byggja upp annars konar varnargetu sem getur komið bandalaginu til góða,“ segir hann.

Eins og er skiptast flugherir NATO-ríkja á um það á hálfs árs fresti að leggja til þotur og áhafnir til að sinna lofthelgiseftirliti þar eystra, en ákveðið hefur verið að lengja frestinn í heilt ár. Samkvæmt núgildandi samningum á þetta kerfi að haldast að minnsta kosti fram til ársins 2018. Kostnaðurinn skiptist þannig að útgerðarríki þotnanna leggur til þoturnar og áhafnir þeirra, en gistiríkið annast alla þjónustu við þær á jörðu niðri.

Þótt eistnesk stjórnvöld séu að auka útgjöld til varnarmála hröðum skrefum leggur Maasikas áherslu á að það standi ekki í neinu samhengi við þá staðreynd að með lofthelgiseftirlitinu þiggi Eistar dýra þjónustu af öðrum NATO-ríkjum.

Bæði Allmann og Maasikas leggja áherslu á að lofthelgiseftirlitið fari fram á grundvelli þeirrar meginreglu að loftrými NATO sé eitt og óskipt. „Við styðjum þetta heilshugar, að sama grunnreglan eigi við um allt loftrými NATO,“ árétta þeir. Ísland er nú eina NATO-ríkið þar sem ekkert reglubundið lofthelgiseftirlit fer fram, umfram það eftirlit sem Ratsjárstofnun sinnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×