Viðskipti erlent

Forstjórinn farinn vegna tapreksturs

Forstjóri bandarísku fatakeðjunnar GAP hætti störfum í vikunni eftir að keðjan var rekin með tapi í fyrra, annað árið í röð.
Forstjóri bandarísku fatakeðjunnar GAP hætti störfum í vikunni eftir að keðjan var rekin með tapi í fyrra, annað árið í röð. MYND/AP

Forstjóri bandarísku fataverslanakeðjunnar GAP hætti störfum í vikubyrjun eftir að fyrirtækið skilaði taprekstri í fyrra. Þetta er annað árið í röð sem GAP skilar tapi vegna samdráttar í sölu.

Undir fyrirtækjahatti GAP eru fatakeðjurnar Banana Republic og Old Navy. Orðrómur hefur verið uppi um að fyrirtækið hyggist losa sig við báðar keðjurnar með það fyrir augum að bæta afkomu.

Forstjórinn fráfarandi, sem heitir Paul Pressler, tók við stöðunni fyrir um fimm árum og hefur ítrekað spyrnt fótum við samdrætti í sölu án sýnilegs árangurs. Hafi stjórn fyrirtæksins því afráðið að segja honum upp störfum, að sögn breska ríkisútvapsins.

Þrátt fyrir samdráttinn er gert ráð fyrir að Pressler, sem er fimmtugur að aldri, gangi út með 14 milljóna dala starfslokasamning. Það svarar til rúmra 969 milljóna íslenskra króna.

Hlutabréfamarkaðurinn tók uppsögn Presslers vel því gengi hlutabréfa í GAP hækkaði um 2,5 prósent í viðskiptum gærdagsins.

Þetta eru góðar fréttir fyrir hluthafa fatakeðjunnar því gengi hlutabréfa í GAP hafa fallið um heil 62 prósent frá aldamótum.

Robert Fisher, sonur stofnanda GAP sem á 37 prósenta hlut í fyrirtækinu, hefur tekið við forstjórasætinu á meðan arftaka er leitað.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×