Viðskipti erlent

Airbus á áætlun

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar

Stjórnendur evrópsku flugvélasmiðjanna hjá Airbus greindu frá því um síðustu helgi að tekist hefði að komast fyrir vandræði í rafkerfinu í hinum nýju Airbus A380 risaþotum félagsins.

 

Um stórt skref er að ræða en vandræðin hafa orðið til þess að afhending vélanna er tveimur árum á eftir áætlun auk þess sem reikningurinn vegna þessa er gríðarhár.

Tore Prang, talsmaður Airbus, segir fyrirtækið á áætlun og munu afhenda Singapore Airlines fyrstu vélarnar í október eins og til stóð. Á meðal annarra kaupenda eru Thai Airways, Virgin og ástralska flugfélagið Qantas.

Tafirnar hafa valdið bæði Airbus og EADS, móðurfélagi flugvélasmiðjanna, miklum vandræðum. Gengi EADS fell um 30 prósent þegar greint var frá því að upphafleg dagsetning afhendingar stæðist ekki og hefur það vart jafnað sig síðan auk þess sem tveir háttsettir stjórnendur beggja félaga voru látnir taka pokann sinn vegna málsins.

Að frátöldum geysiháum kostnaði við þróun og framleiðslu vélanna hafa tafirnar, sem urðu í rafkerfi þeirra, verið Airbus dýrkeyptar. Þær eru taldar nema allt að 3,3 milljörðum breskra punda, um 454 milljörðum íslenskra króna. Gert er ráð fyrir að þessi tala muni hækka þegar fram í sækir, ekki síst ef stjórnendur flugfélaga sem keyptu risaþotur frá Airbus fara í mál við framleiðandann vegna tafanna. Sáu stjórnendur Airbus sér því ekki annað fært en að senda frá sér neikvæða afkomuviðvörun vegna þessa í liðinni viku.

Víst þykir að vandræðin með risaþoturnar urðu til þess að fleyta flugvélaframleiðandanum Boeing, helsta keppinauti Airbus, í toppsætið yfir söluhæsta flugvélaframleiðanda í heimi á síðasta ári. Sölutölur beggja félaga fyrir síðasta ár lágu fyrir í síðustu viku og var ljóst að Boeing hafði selt 1.044 vélar í fyrra á móti 790 vélum Airbus. Var það í fyrsta sinn á öldinni sem Boeing seldi fleiri nýjar vélar en Airbus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×