Viðskipti erlent

Fjárfestingarsjóðir kæra stjórn Stork

Bandarísku fjárfestingasjóðirnir Centaurus og Paulson hafa fyrir viðskiptaráði áfrýjunardómstóls Amsterdam í Hollandi farið fram á lögbann á aðgerðir sem stjórnfyrirtækjasamstæðunnar Stork hefur gripið til vegna hluthafafundar 18. þessa mánaðar. Þá hafa sjóðirnir farið fram á að rannsakaðir verði stjórnunarhættir innan samstæðunnar.

Stjórn Stork samstæðunnar gaf 19. desember síðastliðinn út hlutabréf til Stichting Stork sem jafngilda 50 prósentum kosningabærra hluta í félaginu, að undanskildu einu atkvæði.

Með því segja sjóðirnir að búið sé að taka frá hluthöfum í Stork allt ákvörðunarvald og fara fram á að tekin verði fyrir notkun hlutanna við atkvæðagreiðslu á hluthafafundinum síðar í mánuðinum. Sjóðirnir segjast harma að þurfa að leita til dómstóla í viðleitni til að vernda rétt hluthafa, en heimildin til sértækrar hlutabréfaútgáfu líkt og stjórn Stork greip til er einungis sögð hafa verið til að verjast fjandsamlegri yfirtöku.

Hluthafar Stork og stjórn samstæðunnar hafa deilt síðan í haust þegar samþykkt var á hluthafafundi að selja frá samstæðunni hliðarstarfsemi, en stjórnin er á móti þeirri stefnu.

Hér heima bíður Marel niðurstöðu í deilunni, en auk þess að vera í hópi hluthafa, hefur félagið hug á að kaupa matvælavinnsluvélahlutann Stork Food Systems.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×