Viðskipti erlent

Frekari uppsagnir í vændum hjá GM

Rick Wagoner, forstjóri bandaríska bílaframleiðandans General Motors (GM), greindi frá því á föstudag að fyrirtækið gæti þurft að segja fleiri starfsmönnum upp á þessu ári. GM sagði upp 34.000 manns í fyrra og ákvað að loka tólf verksmiðjum til að draga úr viðvarandi hallarekstri fyrirtækisins.

Bílaframleiðandinn skilaði 10,6 milljarða dala taprekstri á þarsíðasta ári. Það jafngildir tæpum 749 milljörðum íslenskra króna og horfði stjórn GM til þess að bæta afkomuna með uppsögnum og öðrum aðgerðum í fyrra. Fyrirtækið ætlar sömuleiðis að auka starfsemi sína á nýmörkuðum á borð við Indland og Kína.

Rekstur bandarískra bílaframleiðenda var nokkuð þungur á síðasta ári, ekki síst vegna hækkana á eldsneytisverði sem fékk bílakaupendur til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir festu kaup á nýjum bílum. Sala á bílum frá þremur stærstu bílaframleiðendum vestra dróst mikið saman í fyrra. Á sama tíma jókst sala á nýjum bílum hjá japanska fyrirtækinu Toyota og stefnir í að það verði söluhæsti bílaframleiðandi í heimi um mitt þetta ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×