Erlent

Ferðaáætlun 20 þúsund farþega raskast

Strandaglópar á Kastrup-flugvelli.
Strandaglópar á Kastrup-flugvelli. MYND/AP

Ferðaáætlun 20 þúsund farþega SAS-flugfélagsins í Danmörku og Noregi hefur raskast í dag þar sem flugmenn félagsins í báðum löndum hafa ýmist lagt niður vinnu eða tilkynnt sig veika. Flugmenn vilja með þessum aðgerðum mótmæla niðurskurði hjá félaginu.

Um það bil 150 danskir flugmenn hjá SAS lögðu niður vinnu í dag og rúmlega 50 vinnufélagar þeirra hjá SAS í Noregi tilkynntu sig veika. Óvíst er hvenær þeir mæta aftur til starfa. Flugfélagið hefur þurft að aflýsa að minnsta kosti 270 flugferðum til og frá Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn.

Flugmenn SAS afréðu að grípa til þessara aðgerða vegna fyrirhugaðra breytinga á kjörum þeirra. Einnig hefur verið á kreiki sá orðrómur að einhverjum flugmönnum verði sagt upp. Flug um Kastrup flugvöll var að komast í samt lag í morgun eftir að aflýsa þurfti flugferðum um helgina vegna óveðurs sem þá geisaði. Það er því óhætt að fullyrða að farþegar SAS í Danmörku hafi ekki haft neina þolinmæði þegar kom að verkfallsaðgerðum flugmannanna í dag.

Verð hlutabréfa í SAS hefur lækkað um 4% í dag vegna aðgerða flugmannanna. Jens Langergaard, talsmaður SAS, segir aðgerðir flugmannanna stríða gegn samkomulagi þeirra og félagsins og því hafi ekki verið boðað til viðræðna í deilunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×