Innlent

Vill rifta Eignarhaldsfélagi Vestmannaeyja

Vestmannaeyjahöfn.
Vestmannaeyjahöfn. MYND/Haraldur Jónasson

Bæjarráð Vestmannaeyjabæjar samþykkti í fyrradag að bærinn myndi beita sér fyrir því að Eignarhaldsfélagi Vestmannaeyja yrði rift. Um það bil 10 milljónir eru eftir af 230 milljóna króna hlutafé félagsins þegar allt stóð í blóma.

Bæjarstjóri Vestmannabæjar sagði í samtali við NFS í morgun að eignarhaldsfélagið hefði enga starfsemi lengur og hefði ekki haft í nokkurn tíma, því væri tilgangslaust annað en að rifta því. Hann taldi líklegt að aðrir hluthafar myndu einnig skilja þessar röksemdir og vera þeim sammála.

Að sögn Harðar Óskarssonar, stjórnarformanns eignarhaldsfélagsins, eru nú einungis um tíu milljónir eftir af hlutafé félagsins, sem upphaflega var stofnað til að vinna að atvinnubótum í Vestmannaeyjum. Hörður segir að það sé ljóst að með tíu milljóna höfuðstól hafi félagið ekki bolmagn til að beita sér að þeim tilgangi. Hörður segist hafa heyrt af hugmyndum bæjarstjórnarinnar um að annað hvort rifta félaginu eins og það stæði eða að bærinn myndi kaupa hlut annarra hluthafa til að leggja það niður.

Eignarhaldsfélagið komst í hámæli fyrir um mánuði síðan þegar í ljós kom að félagið átti ekki fjármagn til kaupanna á Íslenskum matvælum en félagið tapaði stórum parti af hlutafé sínu þegar Íslensk matvæli urðu gjaldþrota rúmu ári eftir kaupin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×