Viðskipti erlent

Samdráttur hjá iTunes?

Ráðgjafarfyrirtæki segir sölu á tónlist hjá iTunes hafa dregist saman um 65 prósent á fyrri hluta ársins. Apple neitar fréttunum.
Ráðgjafarfyrirtæki segir sölu á tónlist hjá iTunes hafa dregist saman um 65 prósent á fyrri hluta ársins. Apple neitar fréttunum. MYND/Getty

Bandaríski tölvu- og hugbúnaðarrisinn Apple vísar á bug fréttum þess efnis að sala á tónlist hjá iTunes-tónlistarveitu fyrirtækisins hafi dregist saman um 65 prósent á fyrri hluta ársins í Bandaríkjunum.

Forsvarsmenn Apple segja fréttirnar beinlínis rangar því fyrirtækið hafi selt rúmlega 1,5 milljarð laga á tímabilinu. Fyrirtækið hefur þrátt fyrir þetta neitað að gera opinberar upplýsingar um sölu tónlistar á netveitunni.

Ráðgjafarfyrirtækið Forrester Research, sem birti tölurnar í nýlegri skýrslu, segir of snemmt að rýna í merkinguna en ýjar að því hvort kaupendur stafrænnar tónlistar hafi fengið nóg því einungis sé hægt að spila tónlist sem keypt sé í netveitu iTunes í iPod-spilastokkum, sem Apple framleiðir.

Niðurstöðurnar eru svipaðar þeim og greiningarfyrirtækið Nielsen Soundscan greindi frá fyrr á árinu en fyrirtækið segir söluna hafa staðið í stað eða minnkað nokkuð frá byrjun árs. Það bendir hins vegar á að samdráttar gæti hjá fleiri tónlistarveitum en iTunes.

Fram kemur í könnun Forrester Reasearch að sala á tónlist á netinu sé enn sem komið er einungis lítið brot af heildarsölu á tónlist því sala á hljómdiskum trónir enn á toppinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×