Erlent

Sextíu látnir eftir að þak sýningarhallar hrundi í Póllandi

Björgunarmenn ganga í átt að byggingunni í nótt.
Björgunarmenn ganga í átt að byggingunni í nótt. MYND/AP

Sextíu lík hafa fundist í rústum sýningarhallarinnar í Katowice í Póllandi en þak hennar hrundi í gær. Grimmdargaddur er á þessum slóðum og því er lítil von til að fleiri finnst þar á lífi.

Talið er að um fimm hundruð manns hafi verið í höllinni að fylgjast með dúfnasýningu þegar ógæfan dundi yfir. Að sögn sjónarvotta heyrðist brestur í þakinu rétt áður en það féll saman og greip að vonum um sig mikil skelfing. Björgunarlið leitaði í rústunum í alla nótt en enginn hefur fundist á lífi síðan klukkan níu í gærkvöldi enda fór frostið niður í sautján gráður. Reynt var að blása heitu lofti inn í rústirnar en það virðist hafa stoðað lítið.

Sextíu lík hafa fundist og 140 eru slasaðir, sumir alvarlega. Ekki er ljóst hvað varð til þess að þakið hrundi. Slökkviliðið telur að það hafi gefið sig undan snjófargi en eigendur hússins staðhæfa að þeir hafi hreinsað þakið með reglulegu millibili og kemur það heim og saman við lýsingar sjónvarvotta. Ekki er útilokað að frostið hafi veikt málmundirstöðurnar þannig að þær létu undan. Leit verður haldið áfram í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×