Innlent

Lækkuðu skatta um 22 milljarða króna

Alþingi lauk störfum fyrir jól um klukkan sjö í gærkvöldi með afgreiðslu laga um virðisaukaskatt á matvæli, sem lækkar ýmist úr 24,5 prósentum eða 14 prósentum í 7 prósent í mars á næsta ári. Margir þingmenn gagnrýndu að með lögunum lækkar verð á gosdrykkjum og sykruðum svaladrykkjum mest allra matvæla, þar sem vörugjald á þessum drykkjum verður líka fellt niður. Stjórnarliðar bentu á að með þessum lögum sem og lögum um aðrar skattalagabreytingar sem taka gildi um áramótin, svo sem lækkun tekjuskatts um eitt prósentustig, lækkaðu skattar á landsmenn um samanlagt tuttugu og tvo milljarða króna. Þingmenn Samfylkingarinnar fögnuðu lækkun skatta á matvæli og sögðu ríkisstjórnina loks hafa brugðist við sex ára baráttu hennar fyrir lækkun skatta á matvæli.

"Þetta eru óskaplega miklar skattalækkanir," sagði Pétur Blöndal á þingi í gær, "sem að ég þakka hæstvirtri ríkisstjórn mikið og styð hana eindregið í."

Ágúst Ólafur þingmaður Samfylkingar fagnaði lækkun matarverðs en lagði til lækkun virðisaukaskatts á lyfjun. "Eins og staðan verður eftir þennan dag þá verða lyf í efsta þrepi virðisaukaskattsins með 24,5% skatt og við leggjum til að sú skattlagning fari niður í 7%."

Rannveig Guðmundsdóttir fagnaði einnig lækkun matarverðs. "Hér sannast hið fornkveðna að dropinn holar steininn. Í sex ár hefur Samfylkingin beitt sér á Alþingi fyrir lækkun matarverðs en ríkisstjórnin hefur daufheyrt þar til nú á kosningavetri."

Ögmundur Jónasson segir þingmenn Vinstri grænna þykja vel koma til greina að lækka virðisaukaskatt á lyfjum. "Ég held að umræða síðustu mánaða hafi leitt í ljós að hátt verðlag á lyfjum er fyrst og fremst til komið vegna fákeppni og mikillar álagningar þeirra sem annast sölu og dreifingu á lyfjum."

Sæunn Stefánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins tók undir með Ögmundi en sagði ekki hægt að gera allt í einu. "Mér finnst koma vel til greina að við skoðum lyfjaþáttinn en ég vek athygli á því að við erum hér í dag að greiða atkvæði um þessi tvö frumvörp, tekjuskattsfrumvarpið og virðisaukaskattsfrumvarpið, sem munu samtals þýða skattalækkanir fyrir heimilin og fjölskyldurnar upp á 22 milljarða króna."

Alþingi afgreiddi einnig með hraði í gær lög um fjármál stjórnmálaflokkannna. Lögin setja ýmsar skorður á leiðir flokkanna til að afla fjárstuðnings frá fyrirtækjum og einstaklingum, sem ekki mega styrkja flokkana um meira en 300 þúsund krónur á ári, né heldur einstaklinga í prófkjöri. Á móti er styrkur ríkissjóðs til stjórnmálaflokkanna hækkaður úr tæpum tvö hundruð milljónum í rúmlega þrjú hundruð milljónir á ári og ný stjórnmálaöfl fá styrk nái þau hið minnsta tveggja komma fimm prósenta fylgi eða einum fulltrúa á þing. Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna hefur mótmælt lögunum, og segir að með þeim sé verið að ríkisvæða starfsemi stjórnmálaflokkanna og nýjum stjórnmálaöflum gert erfitt að hasla sér völl. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn telja að ýmislegt megi betur fara í lögunum, en fagna því að með þeim séu fjármál stjórnmálaflokkanna komin upp á yfirborðið, enda þurfa þeir nú að skila viðurkenndum ársreikningum til Ríkisendurskoðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×