Innlent

Ekki sanngjarnt að fólk missi réttindin í nýrri vinnu

MYND/Haraldur Jónasson

Flutningur réttinda launafólks á milli sjúkrasjóða í stéttarfélögum er sanngirnismál, það eru formenn ASÍ og BSRB sammála um. Mikill munur á bolmagni sjúkrasjóða í opinbera kerfinu og á almenna markaðnum kemur hins vegar í veg fyrir að launafólk fái réttindi sín flutt þegar það skiptir um vinnu frá hinu opinbera yfir á almenna markaðinn eða öfugt.

Þeir sem hafa borgað í stéttarfélag síðustu ár hafa safnað sér inn réttindum í sjúkrasjóðum verkalýðsfélaganna. Þessi réttindi eru hins vegar mjög mismunandi eftir því hvort fólk vinnur í opinbera geiranum eða á almenna markaðnum. Verkalýðsfélög innan vébanda ASÍ taka eitt prósent af launum í sjúkrasjóði en starfsmenn hins opinbera greiða aðeins 0,25 til 0,35 prósent í sjúkrasjóð. Auk þess hafa sjúkrasjóðir innan ASÍ verið starfræktir síðan fyrir 1980 en sjúkrasjóðir félaga BSRB voru stofnaðir fyrir fjórum árum.

Þetta hefur komið í veg fyrir að veikindaréttur sem fólk hefur safnað fylgi því þegar það skiptir um vinnu milli opinbera geirans og hins almenna markaðar. Ef starfsmaður veikist þannig á fyrstu dögum í nýrri vinnu eftir að hafa flutt sig frá ASÍ til BSRB eða öfugt, þá á hann hvorki rétt á sjúkradagpeningum frá vinnuveitanda né frá stéttarfélaginu. Þegar hefur verið samið um að þessi réttindi flytjist milli sjúkrasjóða þegar fólk skiptir um vinnu hjá hinu opinbera eða skiptir um stéttarfélag innan vébanda ASÍ en ef það fer frá hinu opinbera á almennan markað eða öfugt missir það réttindi sem það hefur safnað upp.

Lögfræðingur ASÍ, Magnús Norðdahl, segir þarna greinilegan mun á réttindum starfsmanna hjá hinu opinbera og hjá starfsmönnum á almennum markaði. Munurinn sé jafnframt víðtækari og felist ekki eingöngu í veikindaréttindum. Meiri hreyfing sé nú á vinnumarkaðnum milli þessara tveggja póla, meðal annars með einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Því segir hann ljóst að þarna þurfi að liðka fyrir því að fólk geti skipt um vinnu og haldið sínum réttindum og í því þurfi verkalýðshreyfingarnar að vinna, það sé hins vegar verkefni formanna félaganna og vinnuveitenda.

Formaður BSRB sagði í gær að kerfið væri vanþróað að þessu leyti og það hlyti að teljast sanngirnismál að fólk missti ekki þau réttindi sem það væri búið að ávinna sér þó það skipti um vinnu. Hann segir það samningsatriði sem þyrfti að nást samkomulag um, að fólk ætti a.m.k. lágmarksréttindi, jafnvel í nýrri vinnu. Formaður ASÍ var honum sammála um að á þessu þyrfti að ráða bót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×