Erlent

Klónað múldýrakyn á verðlaunapalli

Tvö klónuð múldýr voru í fyrsta og öðru sæti á árlegum múldýraveðreiðum í Nevada í Bandaríkjunum um helgina. Múldýrin tvö eru bræður.

Vinnamúkka múldýraveðreiðarnar í Nevada voru haldnar í tuttugasta skipti um helgina, og að sögn fróðra manna er þetta í fyrsta skipti sem klónuð dýr taka þátt í keppni. Múlasnarnir heita Idaho Gem og Idaho Star. Þeir komu í heiminn fyrir þrem árum, en þeir voru búnir til úr erfðaefnum múldýra sem höfðu getið af sér fræga kapphlaupara.

Idaho Gem og Idaho Star hafa verið aðskildir síðastliðin tvö ár, og þjálfaðir sitt í hvoru lagi. Menn voru því mjög spenntir að sjá hvernig þeim gengi í keppni. Og leikar fóru þannig að Idaho Star vann, keppnina, en bróðir hans Idaho Gem var aðeins sekúndubroti á eftir.

Vinnamúkka er smábær um 250 kílómetra norðaustur af Reno, í Nevada. Bærinn er helst frægur fyrir það að útlaginn Butch Cassidy og gengi hans rændu bankann þar fyrir margt löngu. En nú á bærinn líka bræðurna Idaho Gem og Idaho Star. Það hlýtur að vera botnlaus hamingja hjá múldýrafjölskyldunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×