Erlent

Olíuverð á heimsmarkaði í uppnámi

Heimsmarkaðsverð á hráolíu rauk upp í morgun, eftir að æðsti leiðtogi Írana ýjaði að því í gær að röng nálgun Bandaríkjamanna í kjarnorkudeilunni gæti haft áhrif á olíuframboð. Tunnan af hráolíu var komin yfir sjötíu og þrjá dollara í Bandaríkjunum í morgun.

Ástæðu hækkunarinnar er ekki langt að leita. Æðsti leiðtogi Írana, Ajatolla Ali Khameini, sagði í gær að ef Bandaríkjamenn myndu taka ranga ákvörðun í kjarnorkudeilunni við Írana myndi það hafa veruleg áhrif á útflutning olíu til Vesturlanda. Hingað til hafa stjórnvöld í Teheran útilokað að olía verði notuð sem vopn í kjarnorkudeilunni, en ummælin frá í gær benda til þess að það kunni að hafa breyst.

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa enn sem komið er ekki brugðist við ummælunum, en olíusérfræðingar segja þau verulegt áhyggjuefni.

Kjarnorkudeila Írana er stærsta ástæða þess að olíuverð hefur hækkað um tuttugu prósent það sem af er þessu ári. Verstu spádómar sérfræðinga gera ráð fyrir að verðið fari yfir eitt hundrað dollara á tunnu, jafnvel strax í lok þessa árs. Fari svo, gæti það þýtt að bensínlítrinn hér á landi færi upp í eitt hundrað og fimmtíu krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×