Erlent

Glæsiveisla hjá Beckham hjónunum

Hundruð aðdáenda sem söfnuðust saman við heimili Beckham hjónanna í Hertfordshire í Englandi í von um að berja átrúnaðargoð sín augum höfðu ekki erindi sem erfiði í gærkvöldi þegar til hjónanna flykktust um 350 gestir í HM partý fyrirliðans. Aðdáendurnir urðu margir hverjir fyrir vonbrigðum þegar gesti hjónanna bar að garði því flestir þeirra komu í eðalvögnum og bifreiðum með skyggðum rúðum og því lítið að sjá.

Enginn af þeim 350 gestum sem Beckham hjónin buðu í herlegheitin gaf sér tíma til að gefa eiginhandaráritanir eða sinna aðdáendum á annan hátt. Þetta er í annað sinn sem hjónin bjóða í teiti sem þetta en Beckham hélt álíka teiti fyrir HM 2002. Á gestalistanum var margt frægra manna og kvenna þar á meðal framherjinn ungi og snjalli, Wayne Rooney, fyrrum landsliðsfyrirliðinn Alan Shearer, golfarinn Nick Faldo, ofurfyrirsæturnar Kate Moss og Elle McPherson og rokkstirnið Ozzy Osborn og konan hans Sharon.

Gleðskapurinn hófst með því að fjórar þotur sýndu listir sínar en upphaflega ætlaði Beckham að fá Spitfire vélar úr seinni heimsstyrjöldinni til að fljúga yfir veislugesti en hætti við þegar hann var gagnrýndur harðlega fyrir notkun flugvéla úr heimstyrjöldinni síðari til sýningar í partýi sem haldið er vegna heimsmeistarakeppninnar sem haldin er í Þýskalandi. Skemmtiatriðin í veislunni voru ekki af lakari endanum en þar tróðu meðal annarra upp söngvarinn og Íslandsvinurinn Robbie Willliams og sálarsöngvari snjalli, James Brown.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×