Erlent

Íranar ætla að auðga úran

Íranar ætla að hefja auðgun úrans þann 7. mars næstkomandi. Þeir hafa frestað viðræðum við Rússa um að þeir auðgi fyrir þá úran í Rússlandi og flytji það til Írans. Bandaríkjamenn hafa sagt að það komi ekki til greina að Íranar fái að halda áfram áætlunum sínum og útiloka ekki árásir á landið.

Talsmaður Íransstjórnar. Gholamossein Elhman sagði á blaðamannafundi í dag að ekki hafi verið hætt við viðræðurnar við Rússa, þeim hafi aðeins verið slegið á frest. Áætlað var að ríkisstjórnir landanna tveggja myndu funda á fimmtudag um hvort hægt væri að byggja á tilboði Rússa um að auðga úran fyrir þá.

Elham ítrekaði hins vegar enn einu sinni kröfur Íransstjórnar um að vestræn ríki viðurkenni rétt íranska ríkisins til kjarnorkutækni og að íranar hefðu engan áhuga á að eignast kjarnorkuvopn eins og Bush Bandaríkjaforseti hefur fullyrt. Íransstjórn hefur sagt það rétt allra þjóða að framleiða úran og að það sé vilji almennings í landinu. Því vilji Íranar hefja auðgun úrans á ný þann 7. mars.

Bandaríkjamenn hafa sagst ekki útiloka árásir á landið, láti íransstjórn verða að áætlunum sínum. Íranar hafa meinað eftirlitsmönnum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum eftir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákvað að taka mál þeirra upp og lofa þeir auknu hatri í garð Bandaríkjamanna sem og bandamanna þeirra, ráðist þeir á landið. Öryggisráðið hefur ekki sagt hvort gripið verði til refsiaðgerða gegn Íran eins og Bandaríkjamenn hafa krafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×