Erlent

Árangurslaus fundur Japana og N-Kóreumanna

Song Il Ho, aðalfulltrúi N-Kóreumanna í viðræðunum, ræðir við fjölmiðla að þeim loknum.
Song Il Ho, aðalfulltrúi N-Kóreumanna í viðræðunum, ræðir við fjölmiðla að þeim loknum. MYND/AP

Viðræðum milli Japana og Norður-Kóreumanna, sem fram hafa farið í Peking í Kína undanfarna fimm daga til að reyna að koma að nýju á stjórnmálasambandi á milli ríkjanna, lauk í morgun, án nokkurs árangurs að því er virðist. Japönsk stjórnvöld sögðust í gær ekki ætla að koma aftur á stjórnmálasambandi við Norður-Kóreu ef ekki finnist lausn á kjarnorkudeilunni við þá og upplýsingar fáist um alla þá japönsku ríkisborgara sem Norður-Kóreumenn rændu fyrir rúmum 30 árum. Aðalfulltrúi Kóreumanna í viðræðunum sagði eftir að viðræðunum lauk að hann væri hvorki bjartsýnn né vonsvikinn. Báðir aðilar hafi kynnst sjónarhorni hinna betur undanfarna daga, og um leið komist að því að það beri mikið í milli. Þetta voru fyrstu fundir æðstu fulltrúa ríkjanna í þrjú ár og hafa báðir aðilar lýst yfir áhuga á að hittast að nýju.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×