Erlent

Ísraelar hindruðu kosningar í Austur-Jerúsalem

Mynd/GVA

Mikil spenna ríkti á herteknu svæðunum í Palestínu enda hafa þingkosningar ekki farið þar fram í áratug. Í Austur-Jerúsalem fékk aðeins brot kjósenda að neyta atkvæðisréttar.

Rúmlega 1,3 milljónir íbúa Vesturbakkans, Gaza-strandarinnar og Austur-Jerúsalem hafa kosningarétt í þessum fyrstu þingkosningum Palestínumanna í heilan áratug. Kjörstaðir voru opnaðir í bítið og höfðu þá víða myndast biðraðir fyrir utan og hélst kjörsókn jöfn og þétt allan daginn. Aðeins í Austur-Jerúsalem kom til vandræða en þar fékk aðeins brot kjósenda að neyta atkvæðisréttar síns vegna aðgerða ísraelskra stjórnvalda. Margir þeirra lögðu þá á sig tímafrekt ferðalag á Vesturbakkann í gegnum fjölda vegartálma og eftirlitsstöðva. Á meðal þeirra fyrstu sem brugðu sér í kjörklefann var Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar. Hann kvaðst bjartsýnn þar sem kosningarnar væru lýðræðislegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×