Innlent

Staðsetning álvers á Norðurlandi skýrist 1. mars

Ákvörðun um hvar álver verður staðsett á Norðurlandi verður tekin fyrir 1. mars næstkomandi. Samtímis þarf Alcoa að svara því hvort það vilji taka að sér framkvæmdina eða gefa verkefnið frá sér. Hugmyndir gera ráð fyrir að álverið á Norðurlandi verði nokkru minna en það sem Alcoa er nú að reisa við Reyðarfjörð. Valið stendur á milli þriggja staða; Brimness í Skagafirði, Dysness í Eyjafirði og Bakka við Húsavík. Rannsókn á þessum þremur kostum, sem hófst síðastliðið sumar, er nú að ljúka og verða niðurstöður kynntar á íbúafundum á þessum svæðum síðar í þessum mánuði. Að staðarvalsrannsóknininni standa viðkomandi sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög, ríkið og Alcoa en í henni er lagt mat á þætti eins samfélagsáhrif, hafnaraðstæður, jarðskjálfta- og hafíshættu og umhverfisaðstæður. Í samkomulagi sem aðilar gerðu með sér síðastliðið sumar er miðað við að þann 1. mars næstkomandi liggi fyrir allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt verði að taka ákvörðun um hvort og þá hvar skuli unnið frekar að undirbúningi að byggingu álvers. Alcoa þarf þá að svara því hvort það vilji standa að framkvæmdinni á Norðurlandi eða gefa verkefnið frá sér og segir Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, ekkert benda til annars en að fyrirtæki verði þá tilbúið að gefa svar. Landsvirkjun hefur samtímis lagt mat á það hvaðan væri hægt að afla raforku til álvers norðanlands. Þar horfa menn til jarðgufuvirkjana, að sögn Bjarna Bjarnasonar hjá orkusviði Landsvirkjunar. Með stækkun Kröfluvirkjunar, og virkjana í Bjarnarflagi, Gjástykki og Þeistareykjum telur Landsvirkjun unnt að afla nægilegrar orku fyrir allt að 230 þúsund tonna álver. Hugmynd Landsvirkjunar er að virkja í tveimur áföngum og yrði sá fyrri tilbúinn árið 2012 en sá síðari árið 2015. Þetta þýðir að smíði álvers hefst vart fyrr en árið 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×