Erlent

Ófremdarástand er að skapast víða í Evrópu vegna gasdeilu Rússa og Úkraínumanna.

Ófremdarástand er að skapast víða í Evrópu vegna gasdeilu Rússa og Úkraínumanna. Olíurisinn Gazprom skrúfaði í gær fyrir gasleiðslur frá Rússlandi til Úkraínu. Nærri fjórðungur af öllu gasi Evrópu fer í gegnum þessar leiðslur.

Forsvarsmenn Gazprom hafa farið fram á að verðið sem Úkraína greiðir fyrir gas frá Rússlandi verði fjórfaldað, enda hafi það verið allt of lágt í langan tíma. Þessar hugmyndir hafa skiljanlega fallið í grýttan jarðveg hjá stjórnvöldum í Úkraínu, enda kemur þriðjungur af öllu gasi í landinu beint frá Rússlandi.

Í Úkraínu búa tæplega fimmtíu milljónir og því ekki um neinar smá upphæðir að ræða og stjórnvöld í landinu segja að efnahagur landsins myndi riða til falls ef farið yrði að kröfum Gazprom.

Um fjórðungur af öllu gasi sem notaður er í Vestur Evrópu fer um leiðslur sem liggja í gegnum Úkraínu frá Rússlandi. Þannig að þó að íbúar Vestur-evrópu þurfi ekki að örvænta í sama mæli og fátækir íbúar Kænugarðs, gæti skortur á gasi orðið mikill víða í Evrópu ef lausn finnst ekki fljótlega.

Gasiðnaðar sérfræðingar frá öllum löndum Evrópusambandsins koma saman í Brussel á miðvikudaginn, þar sem farið verður yfir hvernig bregðast skuli við því ástandi sem upp er komið.

Forsvarsmenn Gazprom sögðust í dag ætla að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að deila Rússa og Úkraínumanna kæmi ekki niður á öðrum ríkjum. Reynt yrði að leita leiða til að standa við alla samninga sem hefðu verið gerðir við ríki í Vestur-Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×