Innlent

Unnið er að gerð samnings við Kína

Fulltrúar EFTA-ríkjanna á Höfn
Odd Eriksen, Valgerður Sverrisdóttir, Rita Kieber, Joseph Deiss og William Rossier.
Fulltrúar EFTA-ríkjanna á Höfn Odd Eriksen, Valgerður Sverrisdóttir, Rita Kieber, Joseph Deiss og William Rossier.

Fríverslunarsamningurinn sem var undirritaður við Tollabandalag Suður-Afríku á Höfn í Hornafirði síðastliðinn mánudag er sá sextándi í röðinni sem EFTA-samtökin, Fríverslunarsamtök Evrópu, gera. EFTA-samtökin samanstanda af Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss en öll standa þessi lönd fyrir utan Evrópusambandið. Fríverslunarsamningar fela það í sér að tollar á milli landa minnka verulega eða falla niður og greiða þannig fyrir viðskiptum á milli landa.

EFTA-ríkin fyrir utan Sviss hafa einnig EES-samninginn sem veitir fullan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins en EES-samningurinn er mikilvægasti samningurinn sem Ísland á aðild að.

Sérstæði EFTA-samninganna er að þeir ná til fisks og fiskafurða en það er Íslendingum mikilvægt. Meðal landa sem EFTA hefur gert samning við eru Búlgaría, Chile, Ísrael, Singapúr, Tyrkland, Marokkó og Mexíkó. Nýjustu samningarnir eru við Túnis, Líbanon og Suður-Kóreu en þeir tveir síðastnefndu hafa þó enn ekki tekið gildi.

Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, segir að fríverslunarsamningarnir sem EFTA á aðild að jafni viðskiptakjör fyrirtækja hér á landi til samræmis við fyrirtæki innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið fari yfirleitt á undan í fríverslunarsamningaviðræðum sínum og EFTA fylgi á eftir. EFTA hefur það að markmiði að gera jafngóða eða betri samninga en sambandið. Í sumum tilfellum hefur EFTA þó verið á undan eins og þegar samið var við Singapúr. Fyrir utan EFTA-samningana þá hefur Ísland gert tvíhliða samning við Færeyjar og vinnur nú að gerð slíks samnings við Kína.

"Við mörg þeirra ríkja sem við erum að gera fríverslunarsamninga við eru sáralítil viðskipti en menn eru að horfa til þess að skapa strax aðstæður, greiða brautina, þannig að þegar viðskipti komast á þá eru öll skilyrði til staðar til þess að það geti gengið vel fyrir sig," segir Aðalsteinn.

EFTA á nú í viðræðum við nokkur lönd um gerð fríverslunarsamninga, meðal annarra Egyptaland, Kanada og Tæland en það er mikilvægt fyrir EFTA að ná samningum við lönd í Asíu vegna þess hversu markaðir þar vaxa hratt. Það getur til að mynda reynst Íslendingum mjög mikilvægt að ná tvíhliða samning við Kína en vöxturinn þar er meiri en fordæmi eru fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×