Erlent

Hamas bera til baka fréttir um viðurkenningu Ísraelsríkis

Leiðtogar Hamas og Fatah tilkynna um samkomulag fylkinganna.
Leiðtogar Hamas og Fatah tilkynna um samkomulag fylkinganna. MYND/AP

Hamas-liðar segja samkomulag fylkinganna Hamas og Fatah sem tilkynnt var í dag ekki fela í sér nokkra viðurkenningu Hamas-samtakanna á Ísraelsríki. Samkomulagið miðar að því að stöðva innbyrðis átök Palestínumanna af gagnstæðum fylkingum.

Í samkomulaginu kemur fram að báðar fylkingarnar stefni að því að stofna sjálfstætt ríki Palestínu á Vesturbakka Jórdanar og Gaza-svæðinu. Þannig er undanskilið og ekki minnst á í samkomulaginu það landsvæði sem telst til Ísraelsríkis í dag.

Fyrsta túlkun stjórnmálaskýrenda var því sú að með þessu væri Ísraelsríki óbeint viðurkennt. Samningamenn Hamas segja þetta þó ekki svo, heldur sé Palestínuríki á Vesturströndinni og Gaza fyrsta skrefið en ekki lokatakmark. Þeir segja Ísraelsríki dagsins í dag vera byggt á herteknu landi sem tilheyri með réttu Palestínumönnum og að komandi kynslóðir Palestínumanna muni alls ekki sætta sig við Ísraelsríki á landi sem tilheyri þeim.

Samningamenn sögðu hins vegar að í samkomulaginu fælist vissulega samkomulag um stofnun ríkis Palestínu innan fyrrgreindra landamæra sem mörkuð voru árið 1967, sem og samkomulag um að fela Mahmoud Abbas, forseta Palestínu og liðsmanni Fatah, að semja um frið við Ísraelsríki.

Meðan á þessu stendur eru Ísraelsmenn að stilla upp herliði við viðmiðunarlínuna sem skilur á milli ríkjanna tveggja og hóta því að styttist í hernaðaraðgerðir vegna Ísraelsks hermanns sem rænt var af herskáum hópi Palestínumanna. Mannræningjarnir segjast ekki munu sleppa hermanninum fyrr en öllum palestínskum konum og börnum hefur verið sleppt úr ísraelskum fangelsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×